Snæfellsnes meðal hundrað bestu

Mynd með færslu
 Mynd:

Snæfellsnes meðal hundrað bestu

11.12.2014 - 15:16
Á ferðakaupstefnunni í Berlin snemma á þessu ári kviknaði hugmynd um að taka saman lista yfir þá staði sem teldust hvað sjálbærastir áfangastaðir ferðamanna. Í gær var birtur listinn yfir hundrað þá bestu að þessu leyti. Þar á meðal er Snæfellsnes, eini staðurinn á Íslandi sem er að finna á listanum

Stefán Gíslason umhverfisstjórnunarfræðingur fer í dag yfir hvað liggur að baki þessu mati. 

Samfélagið fimmtudaginn 11. desember 2014

[email protected]

----------------------------------------------------------   
Pistill Stefáns 

Snæfellsnes

Snæfellsnes er einn af 100 sjálfbærustu áfangastöðum ferðamanna í heiminum samkvæmt lista sem samtökin „Green Destinations“ birtu í gær. Snæfellsnes er eini íslenski áfangastaðurinn á listanum, en samtals eru þar fjórir aðrir áfangastaðir á Norðurlöndunum og 50 staðir í Evrópu allri. Fjöldi staða í hverri heimsálfu ræðst reyndar af hlutdeild hverrar álfu í ferðamannastraumnum á heimsvísu.

Listinn yfir sjálfbærustu áfangastaðina er nú birtur í fyrsta sinn en hugmyndin að þessu kviknaði á ferðakaupstefnunni í Berlín snemma á þessu ári. Tilgangurinn með listanum er að verðlauna og vekja athygli á þeim svæðum þar sem stjórnendur hafa lagt sig fram um að stýra málum með tilliti til sjálfbærrar þróunar. Óskað var eftir tilnefningum á samfélagsmiðlum og síðan unnu 30 sérfræðingar í ferðamálum úr þessum tilnefningum þar til eftir stóðu hæfilega margir áfangastaðir í hverri heimsálfu. Í þessari úrvinnslu var m.a. athugað hvort viðkomandi svæði væri með einhverja umhverfis- eða sjálfbærnivottun og sömuleiðis tekið tillit til svonefndrar GSTR einkunnagjafar þeirra svæða sem höfðu fengið slíkar einkunnir.

Auk þess að rýna í vottanir og GSTR-einkunnir skoðuðu sérfræðingarnir frammistöðu áfangastaðanna á eftirtöldum sex sviðum:

  • Náttúra
  • Umhverfi
  • Menning og hefðir
  • Félagsleg velferð
  • Grænt hagkerfi og
  • Staðfest græn stefna í ferðamálum

Líklega hefur fólk ólíkar hugmyndir um það hvað sé átt við þegar talað er um áfangastað. Þess vegna hafa þau sem standa að „Green Destination“ skilgreint hugtakið nokkuð nákvæmlega. Með áfangastað í þessu samhengi er þannig til dæmis átt við borg, bæ, hérað, þjóðgarð eða vatnasvæði, þar sem fólk býr og þar sem hægt er að kaupa gistingu. Skilgreiningin getur þannig aldrei átt við einstakar byggingar, fossa eða skemmtigarða svo dæmi séu tekin og heldur ekki um heilu löndin eða ríkin, nema þau séu svo smá að hægt sé að líta á þau eins og hvert annað hérað.

Það að tiltekinn áfangastaður komist í hóp þeirra 100 bestu þýðir að sjálfsögðu ekki að hann sé 100% sjálfbær, enda er svoleiðis fyrirbæri líklega ekki til. Á þessum stöðum hafa menn hins vegar lagt sig fram um að gera staðinn sjálfbærari, sem er miklu frekar ákveðið ferli en varanlegt ástand. Þeir sem heimsækja þessi svæði geta heldur ekki gengið út frá því að ferðalagið þeirra sé sjálfbært. Til þess þyrftu þeir í það minnsta að hafa komist á staðinn með sæmilega umhverfisvænum hætti. Ferðamenn sem vilja stuðla að sjálfbærni ættu að velja vottuð svæði og forðast svæði sem gefa út innistæðulausar yfirlýsingar um eigið ágæti. Núorðið er líka víða hægt að velja umhverfisvottaða gististaði og bókunarsíður á netinu eru að einhverju leyti farnar að aðstoða ferðamenn í leitinni að bestu kostunum hvað þetta varðar.

Áfangastöðunum 100 er ekki raðað innbyrðis á listanum eftir meðaleinkunn, en á vefsíðunni GreenDestinations.info er hægt að raða þeim eftir frammistöðu á hverju sviði um sig. Hins vegar liggur fyrir hvaða áfangastaður skorar hæst af þeim öllum, en það eru Azoreyjar úti á miðju Atlantshafi. Þar fer saman mikil náttúrufegurð, mikil fjölbreytni lífríkisins, mikil áhersla á náttúruvernd, vandaðir göngustígar, grænfánastarf í skólum og hátt hlutfall endurnýjanlegrar orku, svo eitthvað sé nefnt. Stjórnun verndaðra svæða á eyjunum þykir líka til fyrirmyndar og þar er mikið lagt upp úr heildstæðri ímynd og verndun menningararfsins. Þar virðist líka vera þokkalega gott samræmi milli þess sem menn segjast gera og þess sem þeir gera í raun og veru, en þetta atriði er einmitt eitt þeirra sem skiptir máli í einkunnagjöfinni. Það vill nefnilega brenna við að þeir sem fara með stjórn áfangastaða tali fjálglega um það hversu metnaðarfullt umhverfisstarfið þeirra sé, en láti hjá líða að hegða sér í samræmi við stóru orðin.

Mörgum þykir sjálfsagt forvitnilegt að heyra hvaða áfangastaðir á Norðurlöndunum hlutu náð fyrir augum sérfræðinganna 30 sem völdu áfangastaði á listann. Þar má í fyrsta lagi nefna Álandseyjar eins og þær leggja sig, en þar hefur verið unnið markvisst að umhverfismálum um árabil. Í öðru lagi má nefna Sigtuna í útjaðri Stokkhólms, þar sem Arlandaflugvöllur er staðsettur, en í Sigtuna hafa ferðaþjónustuaðilar lagt samkeppnina til hliðar og unnið markvisst að sameiginlegum úrbótaverkefnum í anda sjálfbærrar þróunar. Þriðji staðurinn er Kosterhafið milli Svíþjóðar og Noregs, mjög sérstakt verndað hafsvæði með ótal eyjum og skerjum sem er gríðarlega vinsælt meðal ferðamanna sem sækjast eftir því að dvelja við sjóinn. Ef til vill kannast ekki allir við Kosterhafið, en þaðan kemur einmitt Kostervalsinn sem líklega hljómar kunnuglega í mörgum íslenskum eyrum. Fjórði staðurinn er svo Svalbarði, sem er býsna vinsæll ferðamannastaður þrátt fyrir að vera nokkuð úr alfaraleið. Þar er ágangi ferðamanna stjórnað af ábyrgð og festu, enda hefur lífríkið á svæðinu mikla sérstöðu. Síðast en ekki síst er það Snæfellsnes, sem er eins og áður sagði eini íslenski áfangastaðurinn á listanum yfir 100 sjálfbærustu áfangastaðina. Þar vegur þungt vinna sveitarfélaganna á nesinu síðustu árin með vottunarkerfið EarthCheck. Þessi vinna hefur vakið athygli víða um lönd og er þess skemmst að minnast að Snæfellsnes var tilnefnt til umhverfisverðlauna Norðurlandaráðs fyrr á þessu ári. Sveitarfélögin á nesinu hafa um nokkurra ára bil haft sameiginlegan umhverfisfulltrúa, enda gildir það sama um þessa vinnu og aðra vinnu, að hún vinnur sig ekki sjálf. Theódóra Matthíasdóttir í Stykkishólmi hefur haft þetta verk með höndum síðustu árin.

Það er sem sagt greinilegt að augu umheimsins beinast í vaxandi mæli að Snæfellsnesi og næsta árið mega þeir sem stjórna ferðamálum á nesinu merkja allt sitt efni með þar til gerðu grænu auðkenni með áletruninni „Sustainable Global Destinations. Top-100 2014“.