Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Smölun óeðlileg og ólýðræðisleg

26.05.2017 - 16:35
Stefán Hrafn Jónsson, talsmaður stjórnar Neytendasamtakanna.
 Mynd: RUV - RÚV
Talsmaður stjórnar Neytendasamtakanna segir að það sé óeðlilegt og ólýðræðisleg afskipti af kosningum að einn frambjóðandi sé að íhlutast til um skráningu á þing samtakanna. Helmingur þeirra sem kusu í formannskjöri hefðu einungis mætt til að kjósa. Ólafur Arnarson formaður sagði í fréttum RÚV að ekkert væri óeðlilegt við smölun.

Stefán Hrafn Jónsson, talsmaður stjórnar Neytendasamtakanna, vill breyta lögum félagsins. Ekki hafi náðst málefnaleg umræða á síðasta þingi þar sem yfir helmingur þeirra sem mætti kom einungis til að kjósa formann.
 
Hann segir að minnka þurfi áhrif smölunar á kosningar. Slík aðferð sé ólýðræðisleg í eðli sínu þótt hún tíðkist víða. RÚV sagði frá því í kvöldfréttum í gær að daginn fyrir þing samtakanna í október síðastliðnum hafi Ólafur Arnarson millifært upphæð á reikning samtakanna sem nam ársgjöldum 45 kjörmanna. Ólafur staðfesti í samtali við fréttastofu að hann hefði smalað á þingið og segir að auk þessara 45 hafi enn fleiri mætt fyrir hans atbeina. Hann sagði fyrirkomulagið ekki óeðlilegt. 
 
Stefán Hrafn segir að markmiði samtakanna um lýðræðislega umræðu hafi ekki verið náð á þinginu þar sem helmingur þeirra sem kusu hafi ekki tekið þátt í störfum þingsins. „Mér skilst að ástæða þess að lög Neytendasamtakanna gera ráð fyrir að kosning fari fram á þingi samtakanna sé til að auka þátttöku í þingi samtakanna þar sem jafnan fer fram góð og málefnaleg umræða. Því markmiði var ekki náð á síðasta þingi þar sem yfir helmingur þeirra sem kusu settust ekki niður á þinginu heldur mættu um það bil sem opnað var fyrir kosningu og fóru strax að því loknu og tóku því ekkert þátt í málefnaumræðunni,“ segir Stefán.
 
„Í því ljósi tel ég persónulega að sé augljóst að  breyta þurfi lögunum. Við þurfum að færa lögin betur inn í 21. öldina, og leyfa félagsmönnum að kjósa rafrænt og auka þannig möguleika á að allir félagsmenn geti kosið. Neytendasamtökin eru landssamtök ekki höfuðborgarsamtök,“ segir hann.

Hætt að sigurvegari sitji í umboði vina sinna

„Það þarf að minnka áhrif smölunar á úrslit kosninga því smölun á kjörstað er ólýðræðisleg í eðli sínu þó svo það sé aðferð sem tíðkist víða. Ef smalað er á fámennar kosningar er hætt við að sigurvegari sitji í umboði vina sinna en ekki í umboði þorra félagsmanna. Mér reiknast svo til að formaður Neytendasamtakanna hafi verið kosinn af 1,6% félagsmönnum, þar af er hluti sem formaður hélt utan um greiðslur félagsgjalda fyrir,“ segir Stefán.

Það að einn frambjóðandi sé að íhlutast til um skráningu félagsmanna á þing samtakanna sé að hans mati áliti óeðlileg og ólýðræðisleg afskipti af fyrirkomulagi kosninga. „Starfsmenn samtakanna hafa það hlutverk að innheimta félagsgjöld ekki stjórnarmenn eða frambjóðendur til formanns,“ segir Stefán.