Athugið þessi frétt er meira en 10 ára gömul.

Smokkar of dýrir og ekki töff

14.05.2012 - 20:56
Mynd með færslu
 Mynd:
Skólahjúkrunarfræðingur segir að unglingar noti ekki smokka vegna þess að þeir séu of dýrir. Notkun smokka meðal íslenskra unglinga er með því minnsta sem gerist á Vesturlöndum, ef marka má nýja rannsókn.

Rannsóknin Heilsa og lífskjör skólabarna var gerð við Háskólann á Akureyri. Samkvæmt henni er notkun smokka meðal unglinga í tíunda bekk sú næstminnsta í þeim löndum sem könnunin tók til.

Sextíu og fjögur prósent stúlkna sögðust hafa notað smokk við síðustu samfarir, en 71 prósent pilta. Í Eistlandi, þar sem flestir segjast nota smokka, er hlutfallið um 90 prósent.

Sólrún Ólína Sigurðardóttir, skólahjúkrunarfræðingur segist telja helstu ástæðuna þá að þeir séu svo dýrir. Hægt sé að bregðast við og reyna að lækka þetta og jafnvel haft þá ókeypis. Svo telji hún líka að þetta sé ekki töff.

Sólrún segir rannsóknir sýna að unglingar séu líklegri til að nota smokk ef foreldrar hvetji til þess. Við kaupum dömubindi fyrir börnin okkar,  hjálma fyrir börnin okkar og við kaupum ýmsa hluti, eins og tannbursta til að hafa hreinar tennur. Við þurfum að kaupa smokka þegar þau byrji að stunda kynlíf.

Þingmenn úr öllum flokkum nema Sjálfstæðisflokknum lögðu fram frumvarp á Alþingi í vetur um að lækka virðisaukaskatt á smokkum úr 25 og hálfu prósenti niður í sjö prósent. Frumvarpið hefur ekki komist á dagskrá þingsins.