Smitandi leikgleði á stóra sviðinu

Mynd:  / 

Smitandi leikgleði á stóra sviðinu

10.03.2019 - 18:50

Höfundar

Jónsmessunæturdraumur er eitt þekktasta leikrit leikbókmenntanna. Verkið fjallar um blinda ást, girndina og glens. María Kristjánsdóttir, leiklistargagnrýnandi Víðsjár, fjallaði um sýninguna, hafði ýmislegt við hana að athuga en skemmti sér vel. Hér má lesa og hlusta á umsögnina.

María Kristjánsdóttir skrifar: 

Allra þekktasti gleðileikur Williams Shakespeares, Jónsmessunæturdraumur, var sennilega frumfluttur árið 1595 sem skemmtiatriði í brúðkaupi móður jarlsins af Southampton. Leikurinn fjallar enda um ást, hin fjölmörgu andlit hennar, fjölþreifni og girnd.

Gamanleikurinn gerist í höll í Aþenu þar sem verið er að undirbúa brúðkaup hertogans af Aþenu, Þeseifs og Hyppolitu drottningar Amazónanna. Ástfangið ungt fólk meðal gestanna flýr undan feðraveldinu um nótt úti í skóg þar sem fyrir eru Óberon álfakóngur og spúsa hans Titania. Þau eru einnig mætt í brúðkaupið en bæði hafa þau fyrrum gamnað sér með væntanlegum brúðhjónum. Sömuleiðis flækist þangað hópur iðnaðarmanna sem eru að æfa leikþátt fyrir brúðkaupið. Óberon sem er þrúgaður af afbrýðisemi gagnvart hinni óstýrilátu Titaniu skipar  Búkka skósveini sínum að sækja sér blómið ástarauga en safinn úr því hefur þann eiginleika, sé hann borinn á augnlok sofandi manna og vera, að þau verða ástfangin af því fyrsta sem þau líta auga þegar þau vakna, hvort sem það eru dýr eða menn. Búkki framkvæmir skipanir herra síns en flækir þær nokkuð og stýrir þeim svo úr verður kostuleg framvinda.

Vinsælt stykki

Þetta verk hefur ætíð verið vinsælt viðfangsefni evrópskra leikhúsa og mörg þekkt tónskáld hafa smíðað tónlist fyrir það. Á nítjándu öld og fram yfir miðja tuttugustu öld voru hefðbundnar uppsetningar ýmist í rómantískum stíl eða að hætti Grimmsævintýra. Þetta breyttist á sjöunda áratug 20. aldar m.a. vegna áhrifa pólska leiklistarprófessorsins Jans Kott og rits hans Shakespeare á meðal vor. Þangað sótti leikstjórinn Peter Brook hugmyndir í rómaða sýningu sína árið 1970 og eru flestar evrópskar sýningar síðan undir áhrifum frá þeim Kott og Brook.  

Mynd með færslu
 Mynd:

Slíkra áhrifa má einnig kenna í sýningu Hilmars Jónssonar sem frumsýnd var í Þjóðleikhúsinu síðastliðinn föstudag. Eins og hjá Brook fara til dæmis sömu leikarar með hlutverk Þeseifs og Hyppolitu og Óberons og Titaniu og verkið er flutt fram í tíma. Grunnhugmynd Hilmars og hins listræna teymis er þó gjörólík. Höllin verður að Hóteli Aþenu þar sem veruleiki og draumur sameinast. Áhugaleikararnir sem leika leikritið í leikritinu eru ekki lengur iðnaðarmenn heldur starfsmenn hótelsins.

Ný þýðing en misvel mjólkuð

Bráðfyndin, glæný þýðing Þórarins Eldjárns setur verkið rækilega niður í nútíma, stundum orkaði þýðingin nokkuð flöt en það má vera að slíkt skrifist fremur á reikning leikarana sem vissulega voru ekki allir að glansa í flutningi textans, en fallega hljómaði hann úr munni skemmtanastjórans Búkka, Guðjóns Davíðs  Karlssonar og þaulreyndir gamanleikarar hússins mjólkuðu úr honum hvern dreitil.

Þá er skeytt inn í verkið söngvum og tónlist, sem þekkt eru í nútímanum, á mjög fínlegan og oft skondinn hátt en tónlistarstjóri er Gísli Galdur Þorgeirsson.  

Við okkur blasir í fyrstu  anddyri hins ofurósmekklega Hótels Aþenu sem er á á þremur hæðum og búningar hótelstarfsmanna renna saman við art deco veggfóðrið á veggjunum. Það er Eva Signý Berger sem er myndhöfundurinn. Bogadreginn glæsilegur og ákaflega þénanlegur stigi fyrir villtar hreyfingar liggur úr anddyrinu upp á efri hæðir. Öllu hótelinu er komið fyrir á hringsviðinu sé því snúið vísar það stundum í Globeleikhúsið hans Shakespeares og þá er stutt í það að „Hótel okkar er jörðin“ klingi í höfði áhorfanda. Risastórar gerviplöntur hótelsins, reykvélar, heitur pottur og lýsing breyta hluta byggingarinnar í skóg, eða partýrými þegar nóttin, skellur á. Og þegar það gerist er ekki alveg ljóst hvort maður er að horfa á grímudansleik, súlustað eða upptöku á dísætum poppmyndböndum undir stjórn skemmtanastjórans; rómantísk lýsing Halldórs Arnar Óskarssonar, búningar Karenar Sonju Briem, álfadansar Katrínar Gunnarsdóttur öðlast ekki merkingu sem heild og draumur er það þó ekki.  

Hressileg gredda

Erótísk er hins vegar Birgitta Björnsdóttir í sambandinu við indverska piltinn og Bjarni Snæbjörnsson sem leikur hann. Hressilega gröð er hún svo í samfarasenunni við Bossa sem Búkki hefur breytt í asna og enn perralegri verður senan við það að kona, Ólafía Hrönn Jónsdóttir, leikur Bossa. Það fer hins vegar lítið fyrir kynhvötinni í samskiptum ungu elskendanna fjögurra. Skemmtileg eru þau með afbrigðum í öllum líkamlegum átökum og slagsmálum en í öðrum samleik og samtölum saknar maður þess sem dregur þau hvort að öðru eða hrindir þeim frá. Stóran þátt í því á klaufaleg nálgun á texta og eintóna hávaði  í rifrildum. Hér er vart við leikstjóra að sakast, því nýútskrifaðir nemendur úr leiklistarskóla eiga að hafa fengið betri menntun í samleik, raddþjálfun og textaskilningi, það getur ekki leikstjóri kennt þeim á einu æfingartímabili.

Mynd með færslu
 Mynd:

Leikstjórinn ber hins vegar ábyrgð á því að Ólafía Hrönn leikur nú enn einu sinni miðaldra karlmann og leggur til grundvallar sitt alter ego Hannes. Vissulega er Ólafía Hrönn góð gamanleikkona og í samstarfinu við Hilmar þróar hún karakterinn áfram. En við eigum marga góða gamanleikara á hennar aldri sem hefðu notið sín vel í þessu skemmtilega hlutverki og mér finnst það óvirðing við leikkonuna að vera troða henni æ ofan í æ í sama hlutverkið.   

Gott er að sjá Atla Rafn Sigurðsson aftur á sviði þó eðlilega beri leikur hans merki þeirrar aðfarar sem nafnleysingjar gerðu að honum fyrir ári síðan. Hann heldur sig þannig næstum því til hlés í hlutverki álfakóngsins. En ég geri fastlega ráð fyrir að það muni breytast með fleiri sýningum. Því sú mikla leikgleði sem aldrei þessu vant  ríkir á stóra sviðinu undir stjórn Hilmars er smitandi. Hún skilar sér fram í sal og léttur húmor og ýmis smáatriði í leik gleðja svo sannarlega líka.

Og enn lifir Shakespeare

Tengdar fréttir

Leiklist

Unglingauppreisn í Þjóðleikhúsinu

Leiklist

Skemmtileg en pólitískt máttlaus sýning