Smíðaði talandi klukku fyrir ömmu sína

15.02.2018 - 20:50
Mynd með færslu
 Mynd: Björn Á. Magnússon
„Amma varð blind og átti erfitt með að fylgjast með tímanum,“ segir Björn Á. Magnússon. Því vildi hann kaupa klukku sem segði ömmu hans hvað klukkan væri en slíkar klukkur þekkjast víða erlendis. Björn komst hins vegar að því að engar klukkur tala íslensku. Því var ekki annað í stöðunni en að smíða klukkuna sjálfur.

Íslandsklukkan 1.0

Þrátt fyrir að hafa starfað við tölvur í um 20 ár hafði Björn aldrei tekið að sér verkefni sem þetta og vissi ekki hvert hann ætti að snúa sér. Hann auglýsti eftir aðstoð, til dæmis meðal háskólanema, og Halldór Axelsson, sem starfar fyrir Elab, frumkvöðlafyrirtæki sem sérhæfir sig í tækjasmíði, hafði samband. Björn segir að Halldór hafi veitt ómælda aðstoð við klukkusmíðina en hann forritaði hana og setti saman. Björn nýtti sér svo aðstöðu Fablab til að smíða box utan um klukkuna sjálfa. Eftir nokkrar vikur var fyrsta klukkan tilbúin. Á klukkunni er einn takki og þegar ýtt er á takkann heyrist hvað klukkan er. Björn segir að tæknilega hefði verið hægt að búa klukkuna fleiri eiginleikum en fyrir ömmu hans, sem er níræð og ekki svo hrifin af tækninýjungum, er hentugra að hafa bara einn takka. „Þetta er þá bara Íslandsklukkan 1.0,“ segir Björn.

Þörf fyrir fleiri talandi klukkur

Björn sá fljótlega að fleiri en amma hans hefðu þörf fyrir klukku sem talar íslensku. Í samstarfi við Nýsköpunarmiðstöð, Frumbjörg og Blindrafélagið hefur hann sett sig í samband við framleiðanda. Hann segir að það hafi verið erfitt að finna framleiðanda sem væri til í að framleiða klukkuna í litlu upplagi, 500 stykkjum en ekki fimm þúsund eintökum, en það tókst að lokum. Björn hefur hrundið af stað söfnun fyrir framleiðslunni á Karolina fund og má búast við því að fyrstu klukkurnar komi til landsins skömmu eftir að fjármögnun lýkur. Klukkan verður rafhlöðudrifin og því færanleg milli herbergja, jafnvel heimshluta.

hallao's picture
Halla Ólafsdóttir
dagskrárgerðarmaður
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi