Smávinir fagrir

Mynd: RÚV / RÚV

Smávinir fagrir

31.08.2018 - 18:55

Höfundar

Smávinir fagrir (1940) eftir Jón Nordal og Jónas Hallgrímsson.

Smávinir fagrir er æskuverk Jóns Nordal, samið árið 1940 þegar hann var aðeins fjórtán ára gamall. Fyrstu tónsmíðar Jóns voru fyrir píanó en faðir hans, dr. Sigurður Nordal, benti honum á Hulduljóð Jónasar Hallgrímssonar sem áhugaverðan texta til að tónsetja. Jón segir sjálfur svo frá: „Ég settist niður við borðstofuborðið með skissubók og samdi þetta lag án þess að hafa hljóðfæri. Svo spilaði ég það á eftir, og pabbi tók strax ástfóstri við þetta lag. Ég spilaði það oft heima ef það komu gestir, þá vildu foreldrar mínir oft að ég spilaði eitthvað fyrir fólk – það þótti öllum það mjög fallegt.“ Um 1960 útsetti hann lagið fyrir karlakór en það var ekki fyrr en árið 1979 að hann færði Hamrahlíðarkórnum raddsetningu fyrir blandaðan kór, og í flutningi hans varð lagið að þjóðargersemi.


Sinfóníuhljómsveit Íslands og RÚV tóku í þriðja sinn saman höndum og gáfu landsmönnum kost á að ráða efnisskránni á fyrstu tónleikum hljómsveitarinnar á nýju starfsári. Í þetta sinn gafst almenningi færi á að velja uppáhalds íslensku tónsmíðina sína í tilefni 100 ára fullveldisafmælis. Hljómsveitarstjóri var Daníel Bjarnason.