Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Smálánafyrirtæki braut íslensk lög

Neytendastofa lógó
 Mynd: RÚV
Smálánafyrirtækið eCommerce 2020 telur íslensk lög ekki gilda um starfsemi sína, heldur dönsk, og hyggst áfrýja ákvörðun Neytendastofu. Neytendastofa segir að félagið hafi brotið íslensk lög um neytendalán.

Smálánafyrirtækið hefur aðsetur í Danmörku en býður íslenskum neytendum upp á smálán í gegnum 1909, Hraðpeninga, Kredia, Múla og Smálán. Vísir greindi fyrst frá. 

Brutu íslensk lög

Í ákvörðun Neytendastofu, sem birt var í gær, segir að íslensk lög gildi um lán fyrirtækisins. Fyrirtækið hafi brotið íslensk lög með því að leggja hærri vexti og kostnað á smálán en heimilt er. Kostnaður lánanna hafi verið á bilinu 3.444 prósent upp í 13.298 prósent. Það sé margfalt umfram lögbundið hámark sem er 50 prósent, auk stýrivaxta. Þá hafi upplýsingagjöf verið ófullnægjandi, bæði í stöðluðu eyðublaði og lánssamningum. Neytendastofa krefjist úrbóta ellegar verði lagðar sektir á félagið. 

Það þarf að fá skorið úr þessu lagalega álitaefni

Í tilkynningu sem eCommerce sendi fréttastofu Vísis segir að fyrirtækið hafi átt í góðu samstarfi við Neytendastofu og meðal annars lækkað vexti talsvert og gert úrbætur á eyðublaði og lánssamningum samkvæmt tillögum stofnunarinnar.

Hins vegar fallist þau ekki á allar athugasemdir þeirra, þá helst þær sem snúa að upplýsingum um eftirlitsstjórnvald og úrskurðaraðila. Þeim eigi að vísa til danskra stofnana. Það þurfi að fá úr þessu lagalega álitaefni skorið. Því standi til að áfrýja niðurstöðunni til áfrýjunarnefndar neytendamála. Unnið sé að kærunni að svo stöddu. 

Fagna ákvörðun Neytendastofu

Í frétt Vísis segir að Umboðsmaður skuldara og Neytendasamtökin fagni ákvörðun Neytendastofu.

Í samtali við fréttastofu fyrr í sumar sagði Sara Jasonardóttir, verkefnastjóri fræðslu- og kynningarmála hjá Umboðsmanni skuldara, að smálán og skyndilán væru ein helsta ástæða þess að fólk leiti sér aðstoðar hjá umboðsmanni. Aðallega ungt fólk leiti til þeirra af þessum ástæðum. 

Þá samþykkti stjórn VR í mánuðinum að skera upp herör gegn smálána- og innheimtufyrirtækjum og fjármagna dómsmál gegn þeim og jafnvel bönkum sem innheimta lánin í samstarfi við Neytendasamtökin.