Slysið í Steinsholtsá: Voru í brúðkaupsferð

01.09.2018 - 18:23
Mynd með færslu
Mynd af vettvangi Mynd: Hermann Valsson - Aðsend mynd
Ættingjar bandarísku hjónanna sem lentu í slysinu í Steinsholtsá eru komnir til landsins. Kona á þrítugsaldri lést en hún flaut 650 metra með ánni eftir að hún og maðurinn reyndu að koma sér út úr bíl sínum sem hafði flotið upp og rekið niður ána. Hjónin voru í brúðkaupsferð sinni hér á landi.

Sveinn Kristján Rúnarsson, yfirlögregluþjónn hjá lögreglunni á Suðurlandi, segir í samtali við fréttastofu að ekki hafi verið tekin skýrsla af eiginmanninum í dag en það verði gert á morgun. Hann var kaldur og blautur þegar björgunarlið kom á staðinn.

Sveinn segir allt benda til þess að konunni hafi skrikað fótur þegar hún reyndi að komast á þurrt, þannig að hana rak 650 metra niður ána en töluvert vatn var í henni og hún straumhörð. Konan staðnæmdist á grynningum og björgunarsveitarbíl þurfti til að komast að henni. Endurlífgunartilraunir báru ekki árangur og var hún úrskurðuð látin þegar þyrla Landhelgisgæslunnar kom með hana og eiginmann hennar á Landspítalann síðdegis í gær. 

Engin vitni voru á staðnum en fjölmennt björgunarlið var sent inn í Þórsmörk eftir að tilkynnt var um slysið. Í maí höfðu 9 látist í 8 banaslysum í umdæmi lögreglunnar á Suðurlandi á þessu ári.