
Kanadísk kona lést í slysinu þegar hjólabát var bakkað yfir hana. Lögreglustjórinn á Suðurlandi hefur ákært skipstjórann fyrir manndráp af gáleysi.
Í skýrslu rannsóknarnefndar samgönguslysa um slysið sem kom út í gær kemur meðal annars fram að skipstjóri bátsins hafi ekki haft réttindi til að stýra honum.
Í svari Samgöngustofu við fyrirspurn fréttastofu í dag segir meðal annars að ábyrgðaraðilar útgerðar beri ævinlega ábyrgð á að sjá til þess að mönnun skipa sé lögum samkvæmt. Ekki hefur náðst í Einar Björn Einarsson, framkvæmdastjóra Jökulsárlóns ehf., fyrirtækisins sem skipstjórinn starfaði hjá þegar slysið varð, þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir. Forsvarsmenn fyrirtækisins sendu hins vegar frá sér yfirlýsingu í dag. Hún er svohljóðandi:
Umrætt slys átti sér stað fyrir tveimur árum síðan. Slysið var afleiðing atburðarásar sem hófst með því að einkaþyrla lenti inn á athafnasvæði Jökulsárlóns ferðaþjónustu ehf.
Frá slysdegi hefur félagið farið yfir öryggismál á svæðinu til að tryggja að slys sem þetta geti aldrei endurtekið sig. Félagið mun nú taka til ítarlegrar skoðunar skýrslu rannsóknarnefndar samgönguslysa.
Svæðið við Jökulsárlón er nú komið að fullu í eigu íslenska ríkisins. Gríðarlega mikilvægt er að uppbygging á svæðinu hefjist sem allra fyrst í samræmi við fyrirliggjandi deiliskipulag.