Athugið þessi frétt er meira en 9 ára gömul.

Slökkvistarfið kostar sjö milljónir

10.08.2012 - 17:07
Mynd með færslu
 Mynd:
Kostnaður við slökkvistarfið í Laugardal við Ísafjarðardjúp er kominn upp í sjö milljónir króna og hefur eldurinn ekki enn verið slökktur. Þrír slökkviliðsmenn eru að störfum í kvöld og von á haugsugu á svæðið frá Sigmundi Sigmundssyni, bónda á Látrum. Haugsugur hafa reynst vel í slökkvistarfinu.

Haugsugan mun fara yfir svæðið þar sem reykur kemur upp. Ómar Már Jónsson, sveitarstjóri í Súðavíkurhreppi, segir að í kvöld verði vindur og kjörskilyrði fyrir glóðina því að þá geti allt í einu farið að rjúka úr svæði sem ekki hefur rokið úr um langan tíma. Vindurinn geti reynst hættulegur. 

Óskað hefur verið eftir því að lögregla kanni verði hvernig eldurinn kom upp fyrir rúmri viku. Ómar hefur heimildir fyrir því að grillað hafi verið á svæðinu og eldur verið slökktur daginn áður en tilkynnt var um þann bruna sem nú er barist við. 

Kostnaðurinn við slökkvistarfið er kominn upp í sjö milljónir króna. Ómar segir að það sé stór biti fyrir lítið sveitarfélag. Kostnaðurinn lendi líklega á Súðavíkurhreppi en hann ætlar að skoða hver viðbrögð stjórnvalda hafi verið eftir eldana á Mýrum í Borgarfirði og gosið í Eyjafjallajökli auk þess leita í aðra sér sjóði.

Ómar vill gjarnan finna þá sem urðu til þess að eldurinn kviknaði með það í huga að kanna tryggingastöðuna.