Athugið þessi frétt er meira en 9 ára gömul.

Slökkvistarfi að ljúka í Laugardal

12.08.2012 - 11:59
Mynd með færslu
 Mynd:
Lægt hefur í Laugardal við Ísafjarðardjúp, í rúma viku hefur þar verið reynt að slökkva eld og glóð eftir sinubruna. Í nótt var ekki formleg vakt slökkviliðs en landeigendur fylgjast enn með.

Ómar Már Jónsson, sveitarstjóri í Súðavíkurhreppi, segir þar nú einmunablíðu og kjöraðstæður til að ráða niðurlögum glæða í dalnum. Með aðstoð gætu þær bara slokknað. Ómar segir allan búnað enn á svæðinu og menn í viðbragðsstöðu. Staðan verði metin frá degi til dags. Fari að vinda gæti mögulega þurft að setja aftur á vakt. 

Nú er rigningar von og ef spáin heldur gæti hún í logninu dugað til að slökkva glæður sem enn eru í Laugardal. Rannsókn á upptökum eldsins er ekki lokið en verður haldið áfram í vikunni. Ómar segir að slökkvistarfið hafi orðið sveitarfélaginu dýrt, tíu prósent af skatttekjum þess á árinu en vonir standi til þess að jöfnunarsjóður sveitarfélaga hlaupi undir bagga. Ekkig sé hægt að segja til nú um tjón landeiganda en það geti tekið mörg ár fyrir svæðið að jafna sig.