Slökkvistarf í Fossvogi stendur enn yfir

12.06.2019 - 08:05
Mynd: Birgir Þór Harðarson / RÚV
Eldur kom upp í gömlu, yfirgefnu einbýlishúsi í Fossvogi á fjórða tímanum í nótt. Allt tiltækt lið var sent á vettvang og stóð húsið í ljósum logum þegar að var komið. Slökkvistarf stendur enn yfir en verið er að rífa þak hússins og slökkva í síðustu glæðunum. Húsið er gjörónýtt og verður rifið.

Að sögn Árna Oddssonar, varðstjóra sem stjórnaði aðgerðum slökkviliðs á vettvangi í nótt, hefur enginn búið í húsinu um nokkurt skeið og þótt vitað sé að fólk hafi haldið þar til öðru hvoru í leyfisleysi er ekki er talið að nokkur hafi verið þar innan dyra þegar slökkvilið kom að. Reykkafarar fóru um allt húsið og viðbyggingu við það og fundu ekki nokkurn mann.

Húsið sem brann er bárujárnsklætt timburhús, gamalt og niðurnítt. Húsið er gjörónýtt eftir eldinn, sem að líkindum kviknaði við austurenda þess, utandyra. Aðspurður, hvort þetta benti ekki til þess að um íkveikju væri að ræða vildi Árni engu svara en vísaði á lögreglu, sem mun rannsaka vettvang með morgninum.

Allmikinn reyk lagði yfir næsta nágrenni hússins þegar það brann, þar á meðal Landspítalann í Fossvogi og hús RÚV í Efstaleiti. Á þriðja tug slökkviliðs-, lögreglu- og sjúkraflutningamanna voru á vettvangi þegar mest var.  

Ævar Örn Jósepsson
Fréttastofa RÚV
solveigk's picture
Sólveig Klara Ragnarsdóttir
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi