Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Slökktu sinubruna á Fellsströnd

14.04.2017 - 16:07
Slökkviliðsbíll Slökkviliðs höfuðborgarsvæðisins.
Mynd úr safni. Mynd: Þórgunnur Oddsdóttir
Slökkvilið Dalabyggðar var kallað út síðdegis eftir að tilkynning barst um talsverðan sinueld við Ketilsstaði á Fellsströnd. Jóhannes Haukur Hauksson, slökkviliðsstjóri, segist ekki vita hversu margir hektarar af svæði hafi brunnið en þeir séu töluvert margir.

 

Jóhannes segir að þeir hafi verið tólf til fjórtán að berjast við sinueldinn en þeir hafi einnig óskað eftir aðstoð björgunarsveitarinnar ef kæmi til þess að flytja þyrfti tæki á milli staða. Þess þurfti ekki og nýttist froðubíll slökkviliðsins til að slökkva eldinn.

Jóhannes segir að svæðið verði vaktað fram eftir degi og hugsanlega fram á kvöld. Þarna sé hvasst, sem hafi gert þeim erfitt fyrir. Þá sé slökkviliðið líka lengi á leiðinni ef eldur kviknar aftur.

 

 

freyrgigja's picture
Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV