Athugið þessi frétt er meira en 7 ára gömul.

Slökkti á ljósastaurum fyrir ferðamenn

23.10.2014 - 23:18
Mynd með færslu
 Mynd:
Slökkt var á öllum götuljósum við Kleppjárnsreyki í Borgarfirði á dögunum með því að lýsa með vasaljósi á skynjara sem stýrir götulýsingu í hverfinu. Þar var að verki starfsmaður ferðaþjónustufyrirtækis sem vildi auðvelda ferðamönnum að njóta norðurljósanna.

Greint er frá þessu á fréttavefnum Skessuhorn.is. Þar kemur fram að athæfið hafi sett ferðamenn í hættu sem stóðu á veginum og dáðust að norðurljósunum, en sáust illa í myrkrinu.

Lögreglunni í Borgarnesi barst tilkynning um málið og hafði hún uppi á þeim sem slökkti á ljóstastaurunum á Kleppjárnsreykjum. Maðurinn mun hafa sagt við lögreglu að hann hafi gætt þess að ferðamennirnir væru ekki á veginum. Myrkrið hafi varað í um hálftíma.

Lögregla segir að maðurinn hafi sagst ætla að sjá til þess að þetta gerðist ekki aftur og er málinu lokið af hálfu lögreglu. Þá segir lögregla að komið hafi fyrir síðasta vetur að ferðamenn stöðvuðu bifreiðar á miðjum vegi að næturlagi og færu út til að horfa á norðurljós. Slíkt geti valdið nokkurri hættu þegar aðrir ökumenn koma aðvífandi.