Slógu tún í Eyjafirði á aðventunni

15.12.2016 - 12:05
Mynd með færslu
 Mynd: Reynir Sverrir Sverrisson
Tún var slegið á bænum Hrafnagili í Eyjafirði nú í vikunni. Eftir því sem næst verður komist hefur það ekki gerst fyrr að tún séu slegin í Eyjafirði á aðventunni. Eyfirskir bændur eru enn að plægja og sá grasfræi.

Tún í Eyjafirði eru víða græn ennþá og í hlýindunum undanfarið hefur gras haldið áfram að spretta. Tilgangurinn með því að slá núna er að koma í veg fyrir að sina verði í uppskerunni á næsta ári og því er talið rétt að hreinsa af túninu til að fá betri uppskeru.

Valdimar Níels Sverrisson, tók myndirnar sem fylgja með þessari frétt. Bróðir hans, Reynir Sverrir Sverrisson, birti myndirnar á Facebook síðu sinni. Hann segir auðvitað ekki eðlilegt að vera að slá á þessum árstíma. En ef tíðin verði svona áfram, sé eins víst að tún haldi áfram að spretta. Reynir segir þetta hey ekki lystugt fóður fyrir skepnur. Enda verði því trúlega leyft að liggja á túninu eða því hreinlega hent.

Bændur í Eyjafirði hafa notað tíðina til að plægja tún og sá grasfræi og vinna þannig í haginn fyrir næsta sumar. Sigurgeir Hreinsson, framkvæmdastjóri Búnaðarsambands Eyjafjarðar, segir það ekki einsdæmi á þessum árstíma, þó það sé vissulega sjaldgæft. En hann segist aldrei hafa heyrt um það fyrr að tún hafi verið slegin á aðventunni.

 

agusto's picture
Ágúst Ólafsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi