
Slit á sameign við Jökulsárlón stöðvað
Meirihluti eigenda mótmælti og féllst sýslumaður á að nægar ástæður væru til þess að stöðva nauðungarsöluna. Sá sem bað um að sameigninni yrði slitið ætlar að skjóta málinu til héraðsdóms.
Jón Þór Ólason, lögmaður meirihluta sameigenda, segir nokkrar ástæður fyrir því að sýslumaður hafi stöðvað nauðungarsöluna. Skilyrði um birtingar áskorana hafi ekki verið uppfyllt. Þá hafi umbjóðendur hans talið ástæðu til að stöðva slit á sameigninni þar sem nauðungarsala hefði valdið þeim tjóni enda óhagstætt að selja jörðin með þessum hætti. Við slit á sameign eigi að hafa hagmuni allra að leiðarljósi.
Þá telji umbjóðendur hans að hægt sé að skipta jörðinni andstætt því sem komið hafi fram í matsgerð. Þar hafi verið fullyrt að ómögulegt væri að skipta jörðinni í 32 hluta en Jón Þór segir að yfir 60% sameigenda vilji áfram eiga jörðina í sameign. Því þyrfti aðeins að skipta jörðinni í fimm hluta en ekki 32. Þá hafi sameigandinn sem fór fram á slit ekki sýnt raunverulegan samningsvilja. Í kauptilboði hans hafi hann miðað við að jörðin væri 127-214 milljóna króna virði en það sé í engu samhengi við allar þær tekjur sem verða til á jörðinni á hverju ári. Talað hafi verið um að jörðin gæti verið margfalt meira virði.