Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Sléttbakur lét sjá sig í Faxaflóa

23.07.2018 - 22:48
Mynd: Guðlaugur Ottesen / Guðlaugur Ottesen
Sjaldgæf sjón blasti við áhöfn og farþegum hvalaskoðunarbáta á Faxaflóa í dag þegar sléttbakur sýndi sig nærri bátunum. Að sögn Rannveigar Grétarsdóttur framkvæmdastjóra Eldingar var mikil gleði um borð í Hafsúlunni þegar fólk þar um borð áttaði sig á hvað þarna var á ferðinni, en sléttbakur er nánast útdauður í Norðurhöfum, talið er að stofninn sé á bilinu 350 til 450 dýr.

Skipstjóri hjá fyrirtækinu Whale Watching Reykjanes segist reyndar hafa séð dýrið fyrstur, skammt utan við Rafnkelsstaðaberg út af Reykjanesi og lét vita af því. Sléttbakur fer hægt um og því var auðvelt á veiða hann áður, en tegundin hefur verið friðuð frá árinu 1975. Sléttbakur er auðþekkjanlegur af stóru höfði og hrúðurkörlum.

Matthías Tryggvi Haraldsson
Fréttastofa RÚV