Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Sleppa refsingum fyrir neysluskammta

11.03.2013 - 17:25
Mynd með færslu
 Mynd:
Varsla neysluskammta af fíkniefnum verður ekki lengur refsiverð ef hugmyndir níu þingmanna úr Hreyfingunni, Samfylkingunni og Vinstri-grænum ná fram að ganga. Þingmennirnir hafa lagt fram þingsályktunartillögu á Alþingi um að móta heildstæða stefnu til að draga úr eftirspurn eftir fíkniefnum.

Í tillögunni er gert ráð fyrir að úttekt verði gerð á núgildandi lagaumhverfi, litið verði til löggjafar ríkja sem horfið hafa frá glæpavæðingu og refsistefnu í fíkniefnamálum og skipaður sex manna hópur til að vinna að markmiðum tillögunnar, með fulltrúum frá Landlækni, stjórn SÁÁ, ríkislögreglustjóra, framkvæmdastjóra geðsviðs Landspítala, velferðarsviðs Reykjavíkurborgar og velferðarráðherra.

Þingmennirnir segja að lítið hafi áunnist í baráttunni gegn fíkniefnum á þeim rúmu 50 árum sem eru liðin frá því núverandi stefna í fíkniefnamálum var tekin upp. Stríðið gegn fíkniefnum hafi hvorki orðið til að draga úrneyslu né framboði fíkniefna.

Þingmennirnir níu vilja efla forvarnir, afnema refsingar fyrir vörslu á neysluskömmtum, skipa sérstaka nefnd eða viðbragðsteymi til að meta þörf hvers og eins fyrir þjónustu, vinna að áhættu og skaðaminnkun til að tryggja heilsu og velferð neytenda, tryggja að til staðar verði meðferðarúrræði sem hæfja hverjum og einum og auðvelda þeim sem vilja fíkniefnalaust líf að aðlagast samfélaginu á nýjan leik.

Hugmyndin er ekki sú að lögleiða fíkniefnanotkun heldur sleppa refsingum fyrir vörslu neysluskammta.