Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Slegið í gegn í Dýrafjarðargöngum

17.04.2019 - 19:30
Ráðist verður í framkvæmdir á Dynjandisheiði eins hratt og kostur er segir samgönguráðherra. En framkvæmdirnar ásamt Dýrafjarðargöngum tryggja heilsárssamgöngur innan Vestfjarða. Gegnumslagi í Dýrafjarðargöngum var fagnað í dag.

Tengja sunnan- og norðanverða Vestfirði

Það var spenna í loftinu í Dýrafjarðargöngum í dag þegar mörg hundruð manns voru viðstaddir viðhafnarsprengingu vegna gegnumslags. Miklar vonir eru bundnar við göngin sem eiga að vera tilbúin haustið 2020. „Ég held að þetta tengi okkur betur saman, atvinnu félagslega og styttir leiðri og gerir allt betra,“ segir Borgný Gunnarsdóttir, íbúi á Þingeyri. „Fyrir það fyrsta þá erum við að fara að tengja saman norður og suðursvæði sem eitt atvinnusvæði eins og við erum nú þegar farin að gera með fiskeldi. Þeir eru að keyra sjö hundruð kílómetra ef þeir eru að vinna á tálknafirði og koma heim til þingeyrar heim úr vinnu, þetta er bara rugl í staðinn fyrir kannski 150 kílómetra,“ segir Sigmundur Þórðarson, íbúi á Þingeyri. „Ég held að Íslendingar viti ekki í raun hvað þetta hefur verið heftandi og við í raun langt á eftir,“ segir Hrafnhildur Skúladóttir, Dýrfirðingur.

Fyrsta sprenging var haustið 2017 og framvindan í göngunum verið vonum framar, Íslandsmet slegin og framvindan á undan áætlun miðað við fyrstu plön. „Þetta hefur gengið vel, í sambandi við náttúru, mannafla, sem hefur verið mjög góður, góðar vélar og þá höfum við líka reynt að vera viðbúnir öllu,“ segir Josef Malknecht, verkefnastjóri Metrostav í Dýrafjarðargöngum.

Nýjir möguleikar með bættum samgöngum

Dýrafjarðargöng leysa Hrafnseyrarheiði af hólmi sem er ekki haldið opinni á veturna. „Það eru tæplega þrjátíu ár síðan ég valdi mér heimavistarskóla til að fara í og þá var ísafjarðar ekki valkostur því það var styttra að fara suður, þetta er líður í að breyta því loksins,“ segir Iða Marsibil Jónsdóttir, forseti bæjarstjórnar í Vesturbyggð sem býr á Bíldudal.

Vanir að sækja ferðamenn á lokaða heiði

„Þá þurfum við ekki lengur að sækja bíla upp á Hrafnseyrarheiði sem situr þar fast í snjó - GPS tækin segja þeim að fara þessa leið burt frá því hvort hún er fær eða ekki,“ segir Kristján Gunnarsson, formaður björgunarsveitarinnar Dýra á Þingeyri.

Fara í Dynjandisheiði eins hratt og kostur er

Enn á eftir að fara í framkvæmdir á Dynjandisheiði til að göngin gagnist að fullu og tryggi heilsárssamgöngur milli sunnan- og norðanverðra Vestfjarða. Framkvæmdin er á skipulagsstigi en það brann á gestum að fá að vita hversu lengi þarf að bíða. „Við stefnum að því að birta endurskoðaða samgönguáætlun í haust í þinginu  og með auknu fjármagni og flýtingu verkefna með öðrum leiðum þá vonumst við til að geta gert þetta eins hratt og kostur er en háð því að þessi skipulagsmál gangi hratt og vel fyrir sig,“ segir Sigurður Ingi Jóhannsson, samgönguráðherra.