Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Slasaðri konu bjargað úr læk, þyrlan send heim

07.08.2019 - 00:58
Mynd með færslu
 Mynd: Landsbjörg
Kona sem bjargað var slasaðri og illa kvalinni úr læk í hlíðum Fjarðardals á Seyðisfirði í kvöld er nú á leið til Egilsstaða í sjúkrabíl, en þaðan verður hún send með sjúkraflugi til Reykjavíkur. Þyrlu Landhelgisgæslunnar, sem kölluð var út vegna slyssins, var snúið við skömmu eftir flugtak, þegar fyrir lá að hægt væri að koma konunni í sjúkrabíl.

Davíð Már Bjarnason, upplýsingafulltrúi Landsbjargar, sagði í samtali við fréttastofu að ekki liggi nákvæmlega fyrir hvað gerðist, en svo virðist sem konan, sem er erlend, hafi dottið þar sem hún var á gangi í hlíðinni og endað ofan í læknum. Hún var lemstruð á baki og mjög verkjuð, segir Davíð, en lækni tókst að verkjastilla hana þannig að hægt var að koma henni niður hlíðina, að hluta til í bíl, og í sjúkrabílinn sem beið við hlíðarfótinn. Var hún komin í sjúkrabílinn um klukkan hálf eitt, um þremur og hálfum tíma eftir að björgunarsveitarfólk á Seyðisfirði var kallað út til leitar.

Óvenjulegur aðdragandi

Davíð segir aðdraganda og upphaf þessarar leitar hafa verið með nokkuð óvenjulegum hætti, þar sem fólk vissi í raun ekki almennilega að hverju það var að leita. Um tíuleytið bárust tilkynningar frá golfurum á golfvellinum í Fjarðardal um eitthvað sem hljómaði eins og neyðaróp ofan úr hlíðinni. Fyrstu leitarhópar komu á staðinn um 20 mínútum síðar og hófu leit, fótgangandi og með drónum, og fundu konuna skömmu síðar, aðeins 40 mínútum eftir að fyrsta útkall barst.

Hlúðu þeir að konunni þar til læknir frá Egilsstöðum kom á vettvang, og aðstoðuðu síðan við að flytja hana í sjúkrabílinn. Á annan tug björgunarsveitarfólks tók þátt í aðgerðinni.

Ævar Örn Jósepsson
Fréttastofa RÚV