Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Slær met Bjarna yfir skemmsta þingferilinn

28.08.2017 - 16:14
Mynd með færslu
 Mynd: Skjáskot - RÚV
Þegar Theodóra S. Þorsteinsdóttir, þingmaður Bjartrar framtíðar, lætur af þingmennsku um áramót lýkur stysta þingferli þingmanns sem náð hefur kjöri í þingkosningum, í allavega hálfa öld. Hún er þó fjarri því eini þingmaðurinn til að láta staðar numið áður en fyrsta kjörtímabilinu lýkur. Reyndar hefur það nú gerst fimm kjörtímabil í röð.

Theodóra tilkynnti um helgina að hún hefði ákveðið að segja af sér þingmennsku um áramót. Þá verða fjórtán mánuðir liðnir frá upphafi kjörtímabilsins. Það er skemmsti tími sem kjörinn þingmaður hefur setið á Alþingi, í það minnsta í hálfa öld, eftir því sem fréttastofa kemst næst. Fyrra metið, ef svo má segja, átti Bjarni Harðarson sem sagði af sér þingmennsku í nóvember árið 2008, einu ári og hálfu ári eftir að hann var kosinn á þing.

Þó eru dæmi um að þingmenn hafi setið skemur á Alþingi. Ýmist vegna þess að kjörtímabil var óvenju stutt eða vegna þess að þeir tóku sæti þingmanns sem hafði annaðhvort sagt af sér eða andast á kjörtímabilinu. En þá var það ekki sjálfstæð ákvörðun þingmannanna að hætta.

Úttekt fréttastofu leiðir í ljós að einn þingmaður hefur hætt fyrir lok fyrsta kjörtímabils síns á hverju kjörtímabili frá árinu 2003. Þar áður gerðist það árið 1994. Fréttastofa skoðaði þingsetur aftur til kjörtímabilsins sem hófst 1967, fyrir hálfri öld, og fann ekki önnur dæmi um að þingmenn hættu fyrir lok fyrsta kjörtímabils síns.

Tíu settust aldrei á þing

Þó það sé sjaldgæft að þingmenn hætti á fyrsta kjörtímabili eru dæmi um að enn minna hafi orðið vart kjörinna fulltrúa á Alþingi. Sumir tóku nefnilega aldrei til starfa sem kjörnir fulltrúar þrátt fyrir að hafa náð kjöri.

Níu þingmenn sem kosnir voru á þing á nítjándu öld og einn konungsskipaður að auki tóku aldrei sæti á þingi. Í flestum tilvikum gerðist þetta um miðja öldina. Þá kom fyrir að þingmenn kæmust ekki til funda Alþingis, eins og sést meðal annars á því að sum kjörtímabil kom Jón Sigurðsson ekki til funda Alþingis heldur dvaldi erlendis þar hann bjó og starfaði. Allir nema þessir tíu komust þó einhvern tímann til þingfundar.

Ástæðurnar fyrir fjarveru tíumenninganna voru nokkrar. Kosning Sveinbjörns Jacobsen sem þingmanns Reykvíkinga árið 1864 var metin ógild við þingsetningu. Þá má nefna mál Lofts Jónssonar, útvegsbónda í Vestmannaeyjum, sem kosinn var á þing árið 1851. Fimm af sex kjósendum Lofts afturkölluðu umboð hans til þingsetu vegna mormónatrúboðs hans. Loftur varð síðar mormónabiskup í Utah.

Tólf til viðbótar tóku ekki sæti á kjörtímabili sínu en höfðu áður setið á þingi eða höfðu setið Þjóðfundinn. Níu þeirra voru kosnir á þing á nítjándu öld en þrír á þeirri tuttugustu. Tveir þeirra síðastnefndu voru kosnir á þing á fyrsta áratug aldarinnar, annar þeirra Valtýr Guðmundsson. Síðasti maðurinn sem náði kjöri til þings en settist ekki á þing á því kjörtímabili var Vilmundur Gylfason sem var endurkjörinn á þing 1983 en var látinn þegar kom að þingsetningu.

Mynd með færslu
 Mynd: Samsett mynd - RÚV/Alþingi
Pétur Ottesen, Eysteinn Jónsson og Ólafur Thors sátu allra manna lengst á þingi.

Pétur sat nær 43 ár á þingi

Þaulsætnustu þingmennirnir sátu þar um áratuga skeið. Pétur Ottesen var þingmaður Sjálfstæðisflokksins og forvera hans í 42 ár og 250 daga frá 1916 fram til 1959, frá því um miðbik fyrri heimsstyrjaldar fram í kalda stríðið. Eysteinn Jónsson, þingmaður Framsóknarflokksins, gegndi þingmennsku í 40 ár og 269 daga frá 1944 til 1974, frá því í kreppunni miklu þar til stutt var í lok síðasta þorskastríðsins. Þriðji á lista er svo Sjálfstæðsmaðurinn Ólafur Thors, sem oftast manna hefur verið forsætisráðherra. Hann sat á þingi í 38 ár og 356 daga, frá 1926 til 1964. 

Þaulsætnust í seinni tíð eru Jóhanna Sigurðardóttir sem var á þingi í 35 ár og Steingrímur J. Sigfússon sem setið hefur á þingi frá 1983, í 34 ár.

Brynjólfur Þór Guðmundsson
Fréttastofa RÚV