Athugið þessi frétt er meira en 7 ára gömul.

Slæmt að greiðslurnar voru lækkaðar

Mynd með færslu
 Mynd:

Slæmt að greiðslurnar voru lækkaðar

15.07.2014 - 11:42
Pálína Magnúsdóttir, forstöðumaður Borgarbókasafns, segir slæmt að ríkisvaldið hafi einhliða ákveðið að lækka greiðslur til rithöfunda fyrir útlán bóka þeirra um helming. Mikilvægt sé að aðgengi fólks að lesefni sé sem jafnast og til þess séu bókasöfnin gott tæki.

Kristín Helga Gunnarsdóttir, formaður Rithöfundasamband Íslands, gagnrýndi stjórnvöld í Morgunútvarpi Rásar 2 í gær fyrir að lækka um rúmlega helming þær greiðslur sem höfundar fá fyrir útlán bóka sinna á bókasöfnum. Hún sagði suma félagsmenn svo ósátta að þeir ræddu um að taka bækur sínar úr hillum bókasafna.

Pálína Magnúsdóttir, forstöðumaður Borgarbókasafns, segir slæmt að ríkið hafi lækkað greiðslurnar og telur best að hækka þær aftur. „Ég verð að segja það að þetta hlýtur að vera hluti af launakjörum rithöfunda að fá greiðslur úr þessum sjóði og tryggja það að allir geti þá haft aðgang að þessu lesefni.“

Pálína segir mikilvægt að allir hafi aðgang að lesefni sama hvernig fjárhag þeirra er ætlað. „Bókasöfn eru tæki til að jafna það aðgengi og jafna aðgengi að upplýsingum í landinu.“

Bent hefur verið á að bókasafnskort eru mun ódýrari en til dæmis leiga á myndum, eða aðgangur að sundstöðum og skíðasvæðum. Pálína telur að líta verði til læsis og aðgengis að upplýsingum. „Bókasöfn og sér í lagi almenningsbókasöfn gegna lykilhlutverki í því að viðhalda almennu og góðu læsi í landinu með því að bjóða upp á fjölbreytt og gott lesefni við allra hæfi. Því tel ég að það sé skylda stjórnvalda að tryggja að svo verði áfram,“ segir Pálína. „Mín persónulega skoðun, og ég hef ekkert legið á henni, er að fólk eigi ekki að borga neitt fyrir skírteini á bókasöfnum, ekki frekar en annars staðar á Norðurlöndum.“

Pálína segir ljóst að stórnotendur bókasafna hefðu fæstir efni á að kaupa allar þær bækur sem þeir tækju að láni. Útlán bókasafna dragi þó ekki úr bókakaupum. „Rannsóknir í Bandaríkjunum sýna til dæmis að stærstu kaupendur bóka eru notendur bókasafna.“

Tengdar fréttir

Menningarefni

Vilja taka bækur sínar úr hillum bókasafna

Bókmenntir

Hættulegar hugmyndir um bókaskatt