Athugið þessi frétt er meira en 5 ára gömul.

Slæmar í hálsi – og frábærar

Mynd: Wikimedia Commons / Wikimedia Commons

Slæmar í hálsi – og frábærar

28.04.2017 - 13:30

Höfundar

Sigurbjörg Þrastardóttir er á Ítalíu og auðvitað veltir hún því fyrir sér ítalskri popptónlist. Hún fjallaði um hásar konur sem meina það sem þær syngja um í Víðsjá á Rás 1. Sigurbjörg skrifar:

Góðir hlustendur – sumir ykkar eru kannski að velta fyrir sér hvaða ítalski hjartaknúsari sé hér að syngja, og hvort þeir hafi heyrt minnst á hann áður. Það er skemmst frá því að segja að þetta er hún Fiorella Mannoia, vissulega ítölsk, og kannski hjartaknúsari að sínu leyti – þeir geta væntanlega verið af hvoru kyninu sem er.

Fiorella lenti í öðru sæti í ítölsku söngvakeppninni Sanremo þetta árið, hún var semsagt hársbreidd frá því að verða fulltrúi Ítala í Söngvakeppni evrópskra sjónvarpsstöðva í Kiev, en sigurvegaranum í Sanremo er stundum einmitt boðið að keppa fyrir hönd landsins í Júróvisjón. Ekki alltaf, því Ítalir hafa ekki einu sinni alltaf fyrir því að taka þátt, og engin formleg forkeppni er haldin í landinu. Sanremo er hins vegar alltaf haldin, og hefur verið í hátt í 70 ár, burtséð frá panevrópskum úrslitakeppnum í Baku eða Belgrad.

Föngulegur hópur

Nú, Fiorella Mannoia fyllir hóp frægra ítalskra söngkvenna sem virðast í fljótu bragði vera slæmar í hálsi, kvefsæknar eða hásar af völdum krónískra rifrilda – þetta er stíll sem á greiða leið að ítölskum hlustum og það verður að segjast að túlkunin er oft með miklum ágætum hjá þessum söngkonum sem ég hef hér í huga. Sú þeirra sem hefur kannski náð mestum frama utan ítalskra landssteina er Gianna Nannini. Og konur þessar eru heldur ekki að syngja neina froðu, textinn við lag Fiorellu fékk t.a.m. verðlaun fyrir besta textann í Sanremo í ár, en lagið fjallar um margvíslegt andstreymi í lífinu, en um leið um það hvernig lífið er í raun og veru heilagt, já, beinlínis fullkomið með öllum sínum áskorunum. Við gerum mistök, þurfum að biðjast afsökunar, við erum þver og þröngsýn, við erum þetta og hitt, og þótt við snúum tímaglasinu óþolinmóð í tíma og ótíma skulum við hafa hugfast að tíminn er ekki sandur sem streymir, tíminn er okkar eigið líf – og við þurfum að læra að vefja því þétt að okkur … Ég biðst afsökunar á fljótaskriftinni á þessari samantekt, þetta er ekki textinn orðréttur, hann er góður, þetta er einungis innihaldið. Og einhver myndi raunar segja að í lögunum sem verða ódauðleg í Sanremo sé sterkari sál en í hinu týpíska Júróvisjónlagi, en við tökum ekki afstöðu til þess hér.

Af Fiorellu Mannoia er annars það að segja að hún hóf listrænan feril sinn sem áhættuleikari í vestrum á 7. áratugnum og hefur síðan átt langan feril sem bæði leik- og söngkona.

Kona er nefnd Mia Martini

En það er önnur dimmrödduð kona sem á heima efst í upptalningunni frá því áðan – sú lenti fyrir 15 árum einmitt í öðru sæti Sanremo, líkt Fiorella nú, en henni var hins vegar boðið að keppa í Júróvisjón – þið sjáið að á þessu er engin regla – sem hún og gerði. Og það var ekki seinna vænna því þremur árum síðar var hún öll, lést á heimili sínu við óljósar kringumstæður árið 1995, Ítölum mikill harmdauði, aðeins 47 ára að aldri. Þetta var sjálf Mia Martini, sem auðvelt er að dýrka og dá.

Mia Martini hafði einnig verið landsþekkt frá því á 7. áratugnum, og átti, þrátt fyrir stöku tilheyrandi stormviðri, farsælan tónlistarferil. Lagið sem hún söng til silfurs í Sanremo hefði kannski sigrað Júróvisjón í Svíþjóð árið 1992, hver veit, en þangað fór hún hins vegar með annað lag og lenti í 4. sæti.

Silfurlag Miu Martini úr Sanremo heitir Gli uomini non cambiano og í þeim texta er jafnvel meira undir en í laginu sem áður var rakið. Titillinn merkir Karlmenn breytast ekki og í gegnum lagið eru samskipti kvenkyns ljóðmælanda við karlmenn rakin frá því hún er lítil stúlka. Það er erfitt að koma endursögn til skila svo vel sé, en ýmsar erfiðar senur eru raktar, allt frá ást stúlkunnar á föður sínum sem krítiserar hana og hafnar henni, til þess þegar hún sefur hjá í fyrsta sinn, málstola, hreyfingarlaus og sigruð út í horni (um þetta er á okkar tímum reyndar haft annað hugtak en að sofa hjá). Hún öðlast aukna hörku með tímanum og kemst að því að karlmenn geta verið grimmir í hóp, þeir hlæja að þér, þeir selja þig og kaupa, en eru alltaf dálítið hræddir einir síns liðs. Þeir eru ólíkir mæðrunum sem fæða þá í heiminn og þeir breytast ekki, nema, og þetta er tvistið í frásögninni, þeir sem eru ástfangnir eins og þú, segir hún – og ávarpar þannig í lokin karlmanninn sem sungið er til.

Trúin á orðin

Allt um það, þessi texti gengur býsna langt, en maður trúir hverju einasta orði þegar Mia Martini syngur, hún átti öll verðlaun skilið sem henni hlotnuðust í lifanda lífi – og, við hana eru nú kennd sérstök verðlaun gagnrýnenda í Sanremo-keppninni, en þau verðlaun hefur Fiorella Mannoia sem við heyrðum í í byrjun einmitt hlotið tvisvar.

Ágætu hlustendur, ég vildi bara koma þessari Júróvisjóntengingu til skila þegar tvær vikur eru til úrslitakeppninnar í Kiev, þar verður það Francesco Gabbani sem syngur Occidentali’s Karma fyrir hönd Ítalíu – ég held hins vegar með söngkonum fornrar frægðar sem eru slæmar í hálsi og gefa allt sem þær eiga.