Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Slá tún í rigningu

04.07.2018 - 13:34
Mynd með færslu
 Mynd: Bjarni Pétur Jónsson - RÚV
Það rignir á Suðurlandi en þrátt fyrir það eru bændur farnir að slá tún. Halla Rós Arnarsdóttir, bóndi á Efstadal austan Laugarvatns, hóf að slá tún sín í gærkvöldi og þegar Fréttastofa RÚV náði tali af henni í hádeginu höfðu tuttugu hektarar verið slegnir. Veðurstofan spáir því að það stytti upp í kvöld og verði þurrt fram á hádegi á föstudag. Halla Rós treystir því að ná að þurrka heyið á þeim tíma.

Bjarni Pétur Jónsson fréttamaður hitti Höllu í hádeginu. „Við byrjuðum í gærkvöldi. Bróðir minn fór niður á tún og það voru slegnir 20 hektarar. Mér fannst hann ansi bjartsýnn af því að það er ennþá blautt og kalt. En það er bara kominn júlí og það er smá gluggi. Við erum pínu bjartsýn að það verði þurrt á morgun til að drífa þetta af,“ segir Halla.

Allt snúist um að ná inn góðu heyi. „En eigum við ekki að segja það að við séum bara bjartsýn og þetta endi allt óskaplega vel, fáum bara svakalega gott haust,“ segir Halla.

Á Efstadal er einnig rekin ferðaþjónusta. „Júní er betri í ár en í fyrra með veitingastaðinn. En það eru færri í gistingu. En það er nóg af fólki sem kemur að heimsækja okkur,“ segir Halla.