Athugið þessi frétt er meira en 7 ára gömul.

Skýrt af hálfu ESB að hlé var ekki í boði

04.03.2014 - 20:13
Mynd með færslu
 Mynd:
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, forsætisráðherra, sagði það vera skýra afstöðu af hálfu Evrópusambandsins að hlé á aðildarviðræðum væri ekki í boði - ríkisstjórnin yrði að taka afstöðu til þess hvort viðræðum yrði haldið áfram eða umsókn Ísland dregin til baka.

Þetta kom fram í Kastljósi í kvöld. Sigmundur Davíð  sagði þó að engin hótun hefði fylgt þessari kröfu en að forystumenn ESB hefðu komið því skýrt á framfæri að það væri ekki í boði að hafa þetta í lausu lofti - ríkisstjórnin þyrfti að svara því í hvora áttina hún ætlaði.

Sigmundur sagði að svarið hafi alltaf verið óumflýjanlegt - ekki væri hægt fyrir ríkisstjórn, sem væri andsnúin inngöngu í ESB, að halda áfram viðræðum við sambandið, slíkt væri einfaldlega óheiðarlegt, ekki síst gagnvart Evrópusambandinu.

Sigmundur  sagði að hann væri því fylgjandi að þjóðin fengi að segja sitt álit um stórar ákvarðanir - þær ákvarðanir sem kosið væri um yrðu þó að vera framfylgjanlegar. Þar sem ríkisstjórnin væri andvíg inngöngu væri ekki hægt að kjósa um hvort halda ætti aðildarviðræðum áfram. 

Sigmundur kvaðst þó vera þeirrar skoðunar að það ætti að kjósa um hvort Ísland eigi að sækja um aðild að ESB þegar og ef rétti tíminn kæmi. „Þetta snýst um að taka afstöðu til ákvörðunar sem var tekin án aðkomu þjóðarinnar - hún var ekki spurð þegar ákveðið var að sækja um,“ sagði Sigmundur.

Forsætisráðherra upplýsti enn fremur að engin krafa hefði verið gerð af hálfu Sjálfstæðisflokksins þegar ríkisstjórnin var mynduð um að fara í þjóðaratkvæðagreiðslu um áframhald viðræðnanna við ESB. Það hefði verið fremur einfalt að semja um Evrópumálin í stjórnarmyndunarviðræðunum.