Athugið þessi frétt er meira en 6 ára gömul.

Skýrslan og umræðan hefur vakið upp spurningar

09.01.2017 - 09:14
Þingmaður Viðreisnar 8. desember 2016.
 Mynd: RÚV
Hanna Katrín Friðriksson, þingflokksformaður Viðreisnar, segir í samtali við fréttastofu í morgun að skattaskjólsskýrslan, sem kynnt fyrir helgi, og öll umræðan í kringum hana um helgina hafi vakið upp spurningar innan þingflokksins og að þau ætli að kynna sér málið frekar.

Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, viðurkenndi í kvöldfréttum Sjónvarps í gær að hann hefði ekki verið nákvæmur í svörum í tengslum við skýrslu starfshóps um eignir Íslendinga á aflandssvæðum.

Bjarni sagði á  laugardaginn að skýrslan hefði ekki borist ráðuneyti hans fyrr en eftir þingslit sem voru 13. október. Í gær kom svo í ljós að skýrslunni var skilað til ráðuneytisins 13. september og að Bjarni hefði fengið kynningu á henni 5. október.  „Í huga mínum í gær [laugardag] þá hugsaði ég með mér, ja mér leið eins og þingið hefði bara verið farið heim, en þetta var kannski ekki nákvæm tímalína hjá mér og ég biðst nú velvirðingar á því.“

Hanna Katrín Friðriksson, þingflokksformaður Viðreisnar, segir að skattaskjólsskýrslan og öll umræðan í kringum hana um helgina hafi vakið upp spurningar innan þingflokksins. Þau ætli að kynna sér málið frekar. Þingflokkurinn hittist á fundi núna klukkan níu og átti Hanna Katrín alveg eins von á því að skýrslan yrði rædd á þeim fundi.

Katrín Jakobsdóttir, formaður VG, sagðist í Morgunútvarpinu á Rás 2 í morgun ekki geta sagt til um það hvort skýrslan hefði einhverju breytt um niðurstöðu kosninganna. „En auðvitað hefði verið hreinlegast að skýrslan hefði komið fram þegar henni var skilað. Það hefði verið langbest og farið best á því.“ Mikilvægt sé að nýta hana til að meta stöðuna og hvað sé hægt að gera í þessum málum.

Guðlaugur Þór Þórðarson, þingflokksformaður Sjálfstæðisflokksins, sagði í sama þætti að hann hefði alveg viljað sjá skýrsluna fyrir kosningar. „Við hefðum getað slegið henni upp á henni - þetta hefði verið enn eitt verkið sem Bjarni fór í.“ Hann leyfir sér þó efast um að þetta hafi verið eina úttektin eða skýrslan sem Bjarni hafi fengið skömmu fyrir kosningar.   

Í skýrslunni kom fram að mögulegt tap íslenska ríkisins vegna vantalinna eigna Íslendinga á aflandssvæðum gæti numið allt frá 2,8 milljörðum til 6,5 milljarða á ári.  Og að árunum 2006 til 2014 hafi íslenska ríkið mögulega orðið af 56 milljörðum.