Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Skýrist í dag hvort formlegar viðræður hefjast

02.11.2017 - 12:39
Mynd með færslu
 Mynd: Freyr Arnarson - RÚV
Formaður Vinstri grænna heldur áfram óformlegum viðræðum nú í hádeginu við formenn Framsóknarflokks, Pírata og Samfylkingar um myndun ríkisstjórnar frá vinstri til miðju. Það skýrist síðar í dag hvort farið verður fram á formlegt umboð til stjórnarmyndunar.

Beðið er eftir því að fundi formanna flokkanna ljúki en þá kemur sennilega í ljós hvort farið verður fram á það við forseta Íslands að Katrín Jakobsdóttir fái formlegt umboð til stjórnarmyndunar. Formennirnir áttu langan fund síðdegis í gær og funduðu síðan í kjölfarið með þingflokkum sínum.

Hófleg bjartsýni

Eins og fram hefur komið í máli Katrínar og fleiri þá verði allir flokkar að gefa eftir ef af þessari stjórnarmyndun á að verða.

Logi Einarsson formaður Samfylkingarinnar sagði í gær að hann væri hóflega bjartsýnn en slíkur stjórnarsáttmáli þyrfti að snúast um stóru málin og það hefur Sigurður Ingi Jóhannsson formaður Framsóknarflokks líka sagt.

Þessi ríkisstjórn hefði eins þingmanns meirihluta sem er tæpt en Katrín Jakobsdóttir hefur sagt að hún hafi ekki áhyggjur af því. Stóru málin eru ekki öll þau sömu hjá þessum fjórum flokkum og því reynir á vilja flokkanna til að mynda þessa ríkisstjórn þar sem Katrín Jakobsdóttir yrði að öllum líkindum forsætisráðherra.

Boltinn gæti endað hjá forseta

Ekki er vitað hvort formennirnir þurfi að hitta þingflokka sína á ný eftir að fundinum lýkur. Ef ekki þá verður niðurstaðan sú að annað hvort hefur ekki tekist að komast að niðurstöðu um sameiginlega sýn eða það hefur tekist en þá verður farið fram á það við forseta Íslands að Katrín fái formlegt umboð til stjórnarmyndunar, sem myndi þá sennilega hefjast strax að mati Jóhönnu Vigdísar Hjaltadóttur, þingfréttamanns RÚV.

Ef ekki hefur tekist að finna flöt á samstarfi flokkanna þá verður boltinn líklega hjá forseta Íslands. Hann hefur verið í óformlegu sambandi við formennina og fylgst með framvindu mála. Þá gæti forsetinn gefið enn meira svigrúm, en að mati Jóhönnu Vigdísar er líklegra að hann feli einhverjum formlegt umboð til stjórnarmyndunar. Hvort það verður Bjarni Benediktsson formaður Sjálfstæðisflokksins eða Katrín verður bara að koma í ljós.

johannav's picture
Jóhanna Vigdís Hjaltadóttir
Fréttastofa RÚV
birkirbi's picture
Birkir Blær Ingólfsson
Fréttastofa RÚV