Athugið þessi frétt er meira en 7 ára gömul.

Skýringa krafist á sambandsleysi

26.08.2014 - 22:19
Mynd með færslu
 Mynd:
Bæjarstjórinn á Ísafirði hyggst krefjast skýringa á því hvers vegna það tók marga klukkutíma að lagfæra bilun sem gerði viðskipavini Símans á Vestfjörðum net- og símasambandslausa. Upplýsingafulltrúi Mílu segir að gert hafi verið við um leið og það var hægt.

Síma- og netsamband datt út á sunnanverðum Vestfjörðum og Ísafjarðardjúpi um hálftíuleytið í morgun. Ekki var hægt að eiga ýmiss konar viðskipti auk þess sem erfitt var að ná sambandi við þá sem sinna neyðarþjónustu, meðal annars sjúkrahúsið. Tæpir sjö tímar liðu áður en búnaðurinn sem bilaði var lagfærður.

„Þetta væri mjög alvarlegt ef eitthvað færi úrskeiðis í umdæminu á þjónustusvæði símans. Þar væri maður með GSM-síma og gæti ekki haft samband við 112,“ segir Úlfar Lúðvíksson, lögreglustjóri á Ísafirði.

Undir áhyggjur hans tekur bæjarstjórinn á Ísafirði, Gísli Halldór Halldórsson, sem hyggst krefjast skýringa á því hvers vegna það tók marga klukkutíma að lagfæra bilunina. „Það er alveg ljóst að Ísafjarðarbær, bæjaryfirvöld, munu gera athugasemdir við þetta og kalla eftir skýringum á hvað gerðist, en það sem er ennþá mikilvægara að viðbragðsflýtirinn verði meiri í framtíðinni þannig að það sé hægt að gera við svona bilun um leið og eitthvað fer úrskeiðis.“

Sigurrós Jónsdóttir, upplýsingafulltrúi Mílu, segir að gert hafi verið við eins fljótt og hægt var. „Þetta bara tekur þó nokkurn tíma að finna svona stærri bilanir. En það voru sendir menn á staðinn strax, þeir voru sendir með þyrlu, teymi frá okkur með búnað og græjur til þess að gera við.“

Það óvenjulega við bilunina er að það var ekki aðeins aðalleiðin sem hrundi heldur varaleiðin líka. „Þetta er alveg ótrúleg tilviljun að þetta skuli gerast á sama tíma. Það eru tvær leiðir og þær fara báðar á sama tíma. Þannig að þetta er alveg ömurlegt að svona skuli gerast, sko,“ segir Sigurrós.