Skýra þurfi áhrif vegar um Teigsskóg

18.03.2019 - 10:30
Mynd með færslu
Flæður og leirur við Teigsskóg Mynd: Ólafur Arnalds
Skipulagsstofnun telur að sveitarstjórn Reykhólahrepps hafi ekki gert skýra grein fyrir brýnni nauðsyn þess að leggja Vestfjarðaveg um svæði sem njóta sérstakrar verndar þegar ákvörðun um leiðarval í Gufudalssveit var tekin. Skipulagsstofnun kallar eftir því að gerð sé grein fyrir áhrifum vegarins á þessi svæði en sveitarstjórn tekur nú tillit til athugasemda Skipulagsstofnunar áður en skipulagsbreytingin verður auglýst.

Völdu leið Þ-H um Teigsskóg

Sveitarstjórn Reykhólahrepps samþykkti í janúar að velja leið Þ-H um Teigsskóg í breytt aðalskipulag sveitarfélagsins en skipulagsbreytingin er forsenda þess að hægt sé að veita framkvæmdaleyfi fyrir vegagerð um Gufudalssveit.

Ekki gert nægileg grein fyrir brýnni þörf

Skipulagsstofnun hefur sent sveitarfélaginu athugasemdir til dæmis um að lýsa þurfi brúm og brúaropum, gera þurfi grein fyrir viðbótarrannsóknum og mótvægisaðgerðum. Þá bendir Skipulagsstofnun á að sveitarfélagið þurfi að huga að sérstakri vernd vistgerða og jarðminja sem njóta verndar og sem skipulagsbreytingin hefur áhrif á, eins og  votlendis, sjávarfitja, leirs og sérstæðra og vistfræðilega mikilvægra birkiskóga og óskar eftir því að gerð sé grein fyrir þeim áhrifum sem að vegagerð hefur á þessar vistgerðir og jarðminjar.

Ekki skýrt hver brýn nauðsyn er 

Í náttúruverndarlögum segir að forðast beri að raska slíkum vistkerfum og jarðminjum nema brýna nauðsyn beri til. Skipulagsstofnun bendir á í bréfi sínu til sveitarstjórnar að í rökstuðningi sveitarstjórnarfulltrúa frá því að ákvörðun var tekin um leiðarval í janúar sé ekki vikið með skýrum hætti að því hver sé brýn nauðsyn þess að leggja veginn samkvæmt leið Þ-H þótt fram komi að sveitarstjórnarfulltrúar telji sér ekki fært að velja aðra leið.

Tekið tillit til athugasemda og svo auglýst

Á sveitarstjórnarfundi Reykhólahrepps var sveitarstjóra falið í samráði við Vegargerðina og Alta að lagfæra tillgöguna í samræmi við athugasemdir Skipulagstofnunar áður en hún verður auglýst. Tryggvi Harðarson, sveitarstjóri Reykhólahrepps, segir ekki liggja fyrir hversu langan tíma það tekur. 

Uppfært 18. mars kl. 16.06. Fyrirsögn og meginmáli hefur verið breytt. Í fréttinni stóð að Skipulagsstofnun fari fram á skýringu á brýnni nauðsyn þess að leggja veg eftir Þ-H leið um Gufudalssveit en hið rétta er að Skipulagsstofnun fer fram á að gerð sé grein fyrir áhrifum vegagerðar um svæði sem njóta verndar en fer ekki fram á skýringu á brýnni nauðsyn vegagerðar. Hún bendir hins vegar á í bréfi til sveitarstjórnar að brýn nauðsyn sé ekki nægilega vel útskýrð í fundargerð sveitarstjórnar. 

hallao's picture
Halla Ólafsdóttir
dagskrárgerðarmaður
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi