Athugið þessi frétt er meira en 8 ára gömul.

Skýra þarf lögin um nef- og munntóbak

10.07.2014 - 19:03
Mynd með færslu
 Mynd:
Stjórnvöld þurfa að taka af skarið og ákveða hvort leyfa eigi munntóbak eða banna neftóbak, segir Sigrún Ósk Sigurðardóttir, aðstoðarforstjóri ÁTVR. Nauðsynlegt sé að skýra þessar reglur.

Nýverið voru birtar tölur yfir sölu tóbaks fyrstu sex mánuði þessa árs og bornar saman við sama tímabil í fyrra. Þegar horft er til neftóbaks kemur mikil söluaukning í ljós. Á fyrri helmingi síðasta árs seldust tæplega 12 tonn af neftóbaki, en á fyrstu sex mánuðum þessa árs seldust tæplega 16 tonn. Þetta er þriðjungsaukning frá fyrra ári.

Neftóbak notað sem munntóbak
Þá var verð á neftóbaki hækkað og um leið dróst eftirspurnin saman. Nú selst það hins vegar sem aldrei fyrr, sem skýrist fyrst og fremst af því að um 80 prósent af því neftóbaki sem framleitt er hér á landi, eru notuð sem munntóbak. Munntóbak er hins vegar bannað með lögum.

Sigrún Ósk segir að söluaukningingin frá því í fyrra hafi komið á óvart. „Við gerum okkur fulla grein fyrir því og höfum séð rannsókn sem Landlæknisembættið gerði og vitum það og höfum bent á það að það er erfitt að gera greinarmun á því hvað er munntóbak og hvað er neftóbak,“ segir hún.

Taka verður af skarið
Sigrún segir að það sé stjórnvalda að taka af skarið og ákveða hvort eigi til að mynda að leyfa munntóbak eða banna neftóbak. „Kannski eru til einhverjar aðrar leiðir, en við höfum lagt áherslu á að það sé nauðsynlegt að skýra þessar reglur,“ segir hún.

Ekkert svar hefur hins vegar borist frá stjórnvöldum, þótt ÁTVR hafi fyrst bent á þetta fyrir nokkrum árum. Skatttekjur ríkissjóðs af neftóbaki voru um 375 milljónir á síðasta ári. Ef fram heldur sem horfir verða þær enn hærri í ár.