Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Skynjuðu ótta Steinunnar

05.12.2017 - 19:28
Páll Halldór Halldórsson, mótmælandi við heimili stjórnmálamanna 2010
 Mynd: Facebook
Mótmælendur við heimili Steinunnar Valdísar Óskarsdóttur skynjuðu hræðslu hennar, það var ein ástæða þess að þeir komu aftur og aftur. Þetta segir Páll Halldór Halldórsson, einn mótmælendanna. Hann segir sárt að vita til þess að henni hafi liðið illa öll þessi ár, hann neitar því þó að bera ábyrgð á því. 

 

„Ég var einn af þeim mætti fyrir utan hús alþingismanna. Það sem við hugsuðum var að okkur langaði til að vera með þögul mótmæli, það var ákveðinn hópur sem hittist, ég man ekki hver skipulagði þetta, þetta gerðist einhvernveginn, það kom SMS frá þessum, stundum sendi maður SMS sjálfur: Förum þarna í kvöld, til Gulla, eða Bjarna Ben, Steingríms, Steinunnar Valdísar," segir Páll. 

Hvað var það sem rak þig áfram? Voru einhverjar persónulegar ástæður sem lágu að baki því að þú ákvaðst að taka þátt sjálfur?

„Nei, ég var ekki í brasi sjálfur. Jú ég átti einn bíl á tvöföldu bílaláni eins og svo margir aðrir, ég var ekki í öðrum vandræðum. Þarna var eitthvað sem var ósanngjarnt. Ég er einn af nokkrum sem mætti á þessa staði. Við vildum sýna samstöðu eða gera eitthvað óvenjulegt," segir Páll.

Bara fallegt

Hann neitar því að mótmælendur hafi gengið hart fram.

„Í þau skipti sem ég kom, kannski 6-7-10 sinnum til Steinunnar, þá var þetta allt mjög friðsælt. Lögreglan kom í tvígang og ræddi við okkur. Það var engin ógn af þessum hópi, bara venjulegt fólk eins og ég, ömmur og afar og börn líka. Við stóðum bara kyrr og sögðum ekkert. Engin spjöld og engin háreysti. Bara fallegt, fannst mér."

Hún lýsti þessu í Silfrinu núna um helgina og það var augljóst að henni fannst þetta ekki fallegt. Hún talaði um að gert hefði verið umsátur um heimili hennar í fimm vikur. Fannst ykkur aldrei að þið væruð að fara yfir einhver ákveðin mörk?

„Jú, við dönsuðum á línu. Við vissum alveg að við værum svo sannarlega að pirra fólk. Ég sá að hún var hrædd, svo sannarlega, og kannski má halda fram að það hafi verið veiki bletturinn, að við komum aftur og aftur, að þarna var einhver sem var hræddur og smeykur. Hinir voru, sýndu okkur aðrar hliðar. En hún var hrædd, ég tek undir það."

Bara lítið peð

Mér finnst afar sárt til þess að vita að henni sé búið að líða illa öll þessi ár, en ég tek það ekki persónulega til mín, það verða aðrir að svara fyrir það, það er bara þannig."

Myndirðu biðja hana afsökunar?

„Ég myndi alveg vilja tala við hana um þetta, heyra hennar sögu og hún heyrir mína sögu. En ég er auðvitað bara eitt litið peð af þessu fólki sem var þarna," segir Páll Halldór.