Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Skuldaslóð eftir Solstice og Guns N' Roses

27.11.2018 - 15:54
Mynd: RÚV / RÚV
Fjöldi fólks og fyrirtækja á inni laun eftir vinnu við Secret Solstice og tónleika Guns N' Roses. Sýslumaður hefur tvisvar gert árangurslaust fjárnám hjá fyrirtækinu Solstice Productions á þessu ári, en hátíðin er nú rekin af öðru fyrirtæki.

Tvö árangurslaus fjárnám

Secret Solstice er með samning við Reykjavíkurborg til 2020. Hátíðin var fyrst haldin 2014 og hefur verið umdeild, ekki síst vegna þess að hún hefur verið í miðju íbúðarhverfi í Laugardalnum og töluvert hefur verið um fíkniefnaneyslu. Sýslumaðurinn á höfuðborgarsvæðinu hefur tvisvar gert árangurslaust fjárnám hjá Solstice Productions. Fyrst í janúar að beiðni Tollstjóra upp á fjórar milljónir og síðan í október að beiðni Prologo skiltagerðar upp á tæpa hálfa milljón. 

Ný kennitala, nýr framkvæmdastjóri

Í nýjum samningsdrögum borgarinnar vegna Secret Solstice segir að hún skuli verða minni í sniðum, haldin hér á Þróttaravellinum og að Reykjavíkurborg fái þrjátíu miða til eigin ráðstöfunar inn á hátíðina. 

Nýtt fyrirtæki, Live Events, í eigu Guðmundar Viborg, hefur tekið við rekstri hátíðarinnar af Solstice Productions. Þá hefur Víkingur Heiðar Arnórsson tekið við sem framkvæmdastjóri.

Hafa ekki fengið krónu

Fréttastofa hefur rætt við fjölda fólks sem á inni laun, margar milljónir í einhverjum tilvikum, hjá Solstice Productions vegna vinnu við hátíðina og tónleika Guns N Roses í sumar.  

Jón Heiðar Leifsson er einn þeirra, sem vann með níu manna teymi að undirbúningi tónleikanna í sumar í marga daga. 

„Eftir að það spurðist út að þeir ætli að halda hátíðina aftur 2019 þá var mikil reiði í fólki sem hefur enn ekki fengið greitt fyrir síðustu hátíð og jafnvel lengra aftur í tímann,” segir Jón Heiðar. 

Skuldin komin í innheimtu

Samanlögð skuld segir Jón Heiðar að sé yfir fimm milljónir króna, en enginn þeirra hefur fengið greitt. Málin eru nú komin til Inkasso í innheimtu.   

„Núll krónur. Ekkert komið. Þrátt fyrir að við höfum sent pósta og haft samband við fólkið en það er ekkert svar sem kemur, það hefur ekkert svar komið síðan í ágúst,” segir Jón Heiðar.