Athugið þessi frétt er meira en 9 ára gömul.

Skuldalausnir leiða til hærra íbúðaverðs

04.12.2013 - 13:00
Mynd með færslu
 Mynd:
Aðgerðir ríkisstjórnarinnar í skuldamálum leiða væntanlega til aukinna byggingaframkvæmda og hærra íbúðaverðs, að mati hagfæðings hjá Landsbankanum.

Ari Skúlason, hagfræðingur hjá Landsbankanum, gerir ráð fyrir að aðgerðir ríkisstjórnarinnar í skuldaleiðréttingum, það er að segja lækkun höfuðstóls lána og skattleysi á lífeyrisiðgjöldum sem fara til niðurgreiðslu íbúðalána, muni hafa tvenns konar áhrif á fasteignamarkaðinn. „Annars vegar hefur þetta hugsanlega áhrif á verð á eignum og svo væntanlega einhver áhrif á uppbyggingu, hugsanlega ýta undir íbúðabyggingar,“ segir Ari.

Hann segir að aukið rými geti komið af stað hreyfingu. „Maður getur þannig séð fram á að þegar losnar um fyrir fólki fari að koma meiri hreyfing, til dæmis hjá því fólki sem verið hefur í biðstöðu og beðið og séð til hvernig mál myndu æxlast og þar með myndi svona einhverjar svona hreyfingar fara af stað.“

Áhrifin meiri en gefið er til kynna

Ari segir að fasteignaverð hafi hækkað að undanförnu, en erfitt sé að meta stöðuna út frá þeim upplýsingum sem nú liggja fyrir. Sérfræðingahópur ríkisstjórnarinnar segir að þjóðhagsleg áhrif af aðgerðunum séu tiltölulega mild. Ari segir að það verði skoðað nánar þegar meiri upplýsingar liggja fyrir.

„Að öllu jöfnu held ég að megi ætla að áhrifin verði eitthvað meira en þarna er gefið til kynna, en hvort þau verða verulega mikið meiri er  ógurlega erfitt að segja um á þessum tímapunkti,“ segir Ari.