Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Skuggalegir innbrotsþjófar reyndust eiga húsið

22.02.2019 - 18:05
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu barst tilkynning um innbrot í heimahús nýverið. Lögreglumenn voru sendir af stað með blikkandi ljós enda voru líkur á að um yfirstandandi innbrot að ræða.

Frá þessu er sagt í færslu á Facebook-síðu lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu. Það var nágranni sem hafði samband við lögreglu og lýsti þjófunum sem skuggalegu pari á miðjum aldri sem hafði fundið sér leið inn í gegnum bílskúr hússins.

Á leið sinni á vettvang höfðu lögreglumennirnir samband við húsráðanda til þess að upplýsa hann um stöðuna. Hann var þá nýkominn inn úr göngutúr með konunni sinni í slagveðri og þau klædd í samræmi við það. Engir innbrotsþjófar fundust á heimilinu.

Húsráðandinn sagði að þau hefðu vissulega gengið inn í gegnum bílskúrinn og því ljóst að málið væri byggt á misskilningi. Húsráðandinn er lögreglumaður á höfuðborgarsvæðinu og hefur verið duglegur við að biðja nágranna sína um að tilkynna grunsamlegar mannaferðir til lögreglu. Nágranninn kannaðist hins vegar ekki við nágranna sína þegar hann hringdi innbrotið inn.

Lögreglan segir í færslu sinni að nágranninn hafi brugðist hárrétt við, „enda er betra að hringja einu sinni of oft í lögregluna með upplýsingar af þessi tagi en einu sinni of sjaldan.“

birgirthh's picture
Birgir Þór Harðarson
Fréttastofa RÚV