Athugið þessi frétt er meira en 7 ára gömul.

Skrýtið að busla í heitri sundlaug í snjókomu

29.01.2016 - 19:15
Allt kapp er nú lagt á að sýrlensku fjölskyldurnar, sem settust að á Akureyri, kynnist samfélaginu þar og aðlagist breyttum aðstæðum sem best. Og þeim fannst skrýtið í dag að busla í heitri sundlaug í frosti og snjókomu.

Nú eru tíu dagar síðan fjölskyldurnar fjórar komu til Akureyrar. Stuðningsfjölskyldur þeirra hafa frá fyrsta degi lagt allt kapp á að aðstoða þær sem best. Kynna þeim bæinn og aðstæður í þessu nýja samfélagi.

Sund, fótbolti og ferðir á söfn
Eitt af því fyrsta var að finna afþreyingu, ekki síst fyrir börnin, og það hefur heldur betur hitt í mark. Þau hafa meðal annars farið í sund, á fótboltaæfingar og skoðað söfnin á Akureyri.

Skrýtið að busla í heitu vatni og snjókomu
Og þau skelltu sér í sund í dag og skemmtu sér konunglega. Sum þeirra geta tjáð sig á ensku og Anjad Naser segist hafa synt mikið og honum líki það vel. Og þeim fannst skrýtið að vera í sundi og snjókomu á sama tíma. Jane Alkhadid segir þetta vera í fyrsta eða annað sinn sem hún upplifir það að vera í snjó.

Hlýjar móttökur skipta mestu máli
Faðir Jane, Ibrahim Alkhadid, segir fjölskyldurnar afar ánægðar með móttökurnar á Akureyri. Mestu máli skipti þær hlýju móttökur sem stuðningsfjölskyldurnar sýni þeim. „Þau hitta okkur á hverjum degi og á kvöldin og bjóða okkur upp á allskyns afþreyingu. Og í dag njótum við þess að synda í þessu stórskrýtna veðri, frosti og snjó.“

Frábært að finna að þau eru velkomin
Ibrahim segir þau í raun ekki hafa búist við þessum móttökum og og öllum þessum stuðningi. „Þetta stuðningur dugar okkur til að jafna okkur hér. Að finna að við erum velkomin. Við gleymum öllu,“ segir hann. 

Auðveldar þeim að öðlast nýtt líf
Og þetta muni auðvelda þeim að aðlagast og markmiðið sé að komast sem fyrst inn í samfélagið á Akureyri. „Að læra íslensku og finna vinnu til að geta sem fyrst lagt eitthvað til samfélagsins og byrjað að byggja upp lífið á ný, fyrir okkur og börnin okkar,“ segir Ibrahim Alkhadid.