Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Skrifræðið víkur í barnavernd í Bretlandi

05.09.2018 - 22:19
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Skipulag barnaverndarþjónustu í Bretlandi hefur verið betrumbætt og gert skilvirkara, segir breskur félagsfræðiprófessor. Bresk stjórnvöld notuðu meðal annars tillögur hans til úrbóta.

Eileen Munro prófessor í félagsfræði við London School of Economics hélt opnunarfyrirlestur á þriggja daga norrænni ráðstefnu um barnavernd í Norðurljósum Hörpu. Bresk stjórnvöld fólu henni að gera úttekt á barnaverndarkerfinu í Bretlandi árið 2010 meðal annars í kjölfar mikillar gagnrýni á barnaverndaryfirvöld sem voru talin hafa brugðist þegar rúmlega eins árs drengur lést árið 2007 af völdum ofbeldis sem hann hafði verið beittur í langan tíma og yfirvöld vissu af. 

Eileen Munro skoðaði fyrst ástandið eins og það var en þá höfðu verið reyndar ýmsar úrbætur: 

„Reynt hafði verið að bæta starfið með því að taka upp framgangsmáta og reglur. Þegar slíkt hafði staðið yfir í nokkur ár tók framgangsmátinn algerlega yfir og fjölskyldurnar, foreldrarnir og börnin voru orðin að hlutum sem stýrt var samkvæmt framgangsmáta í stað þess að vera manneskjur sem þurfti að hjálpa. Svo þetta var orðið að skrifræði frekar en liðsinnandi starf,“ segir hún. 

Tillögur hennar sem farið var eftir voru þær að draga úr skriffinnsku og regluverki og meta hjá fjölskyldum hvernig þeim líkaði þjónustan. Áður hafði 80 prósent hafi vinnu félagsráðgjafa farið í að vinna við tölvur vegna óskilvirks regluverks. 

„Það snerist um að veita barnaverndarstöðvum [um landið] aukinn sveigjanleika til að einbeita sér fjölskyldunum og börnunum frekar en að tölvuskráningunni.“

Munro segir ástandið sé nú víðast orðið mun betra. Reyndar séu barnaverndarnefndir sums staðar í landinu hræddar við að breyta og þar sé ástandið svipað og var. 

„Sumar þessara stofnana hafa gripið tækifærið til að beina sjónum aftur að því að vinna með fjölskyldunum, sem manneskjum, en ekki stýra tilfellum samkvæmt framgangsmáta.“

Þórdís Arnljótsdóttir
Fréttastofa RÚV