Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Skrifað í geðshræringu en ekki til að hóta

Mynd með færslu
 Mynd:
Einar Bárðarson, eiginmaður Áslaugar Thelmu Einarsdóttur, segir að bréf sitt til Orkuveitu Reykjavíkur eftir brottrekstur Áslaugar hafi alls ekki verið hugsað sem hótun. Hann segir að bréf sitt hafi verið óheppilega orðað og skýrist af því að það var skrifað þegar hann var í mikilli geðshræringu eftir mikið áfall. Hann segir að orð sín um að leysa málið sín á milli eða blanda öðrum í það hafi einfaldlega þýtt að málið færi fyrir dómstóla ef það leystist ekki með öðrum hætti.

Helga Jónsdóttir, starfandi forstjóri Orkuveitu Reykjavíkur, sagði í Kastljósi i fyrra kvöld að hún hefði upplifað tölvupóst Einars til stjórnenda Orkuveitunnar sem hótun. Hún sagði í samtali í fréttum í gær að hún myndi meta hvort ástæða væri til að leggja fram kæru á hendur Einari vegna slíks. Þar er vísað til tölvupósts sem Einar skrifaði eftir að eiginkonu hans var sagt upp. Þar krafðist hann þess að uppsögn Áslaugar Thelmu yrði endurskoðuð og að hún fengi tveggja ára laun í miska- og réttlætisbætur. „Við getum klárað það okkar á milli eða blandað fleirum í þá baráttu mína,“ sagði Einar sem kvaðst ekki myndu linna látum fyrr en Áslaug hefði fengið réttlát málalok. Hann sagði einnig í bréfi til Orkuveitunnar að það væri ljóst að taktík fyrirtækisins væri að kaupa sér tíma og/eða þreyta þau hjón.

Helga sagðist ekki útiloka að Einar yrði kærður fyrir hótun vegna skrifanna, ef frekari yfirferð hennar þykir gefa tilefni til þess.

„Í þessu felst engin hótun“

„Ef að Helga ætlar að kæra mig þá verður hún bara að gera það,“ segir Einar í samtali við fréttastofu. Hann segist aðeins hafa skrifað bréfið til að vekja athygli forstjóra Orkuveitunnar á málum konu sinnar og því að þau hjón vildu ræða þau mál við stjórnendur fyrirtækisins. „Í þessu felst engin hótun.“ Með þessu hafi hann viljað segja að ef ekki næðist samkomulag við stjórnendur Orkuveitunnar um starfslok Áslaugar Thelmu færi málið að öllum líkindum fyrir dómstóla.

„Ef þetta bréf er hótun þá þarf að fara með allar innheimtustofur landsins fyrir héraðsdóm og það í hvelli,“ segir Einar. Hann viðurkennir þó að bréfið hafi verið óheppilega orðað. Hann segir að það hafi verið skrifað í mikilli geðshræringu eftir mikið áfall og að taka verði mið af því.