Ottó starfar ásamt öðrum nemendum á rannsóknarstofu þar sem hann rannsakar efni og eiginleika þess. „Við skoðum hvernig atóm hegða sér. Til að eiga við atómin notum við leysiljós og segulsvið,“ segir Ottó. Hópurinn er hluti af ScienceAtHome teyminu við Árósarháskóla, sem samanstendur af fjölbreyttum hópi vísindafólks, forritara, hönnuða og sjónlistamanna. Teymið þróar og útsetur vísindatengda leiki með það að markmiði að samþætta leik og lærdóm.
Gerðu myndband um Bose-Einstein þéttingu
Hópurinn sendi nýverið frá sér myndband þar sem áhorfendum er boðið inn í rannsóknarstofuna og útskýrt er hvernig heimsins kaldasta efnisástand er útbúið, svokölluð Bose-Einstein þétting. „Það er ekki markmið í sjálfu sér hjá okkur, en við verðum samt að geta búið það til,“ segir Ottó. „Þegar atómin eru í því ástandi (eða atómskýið), vitum við að það verður ekki kaldara. Það er að segja að hreyfingin á atómunum er afar lítil,“ segir hann. „Ef atómin eru heit, ferðast þau hratt og þá er erfitt að hafa stjórn á þeim, ef þau ferðast hægt þá er auðveldara að reyna að stýra þeim. Svo er það einmitt líka að þegar við kælum þau niður með þessum hætti sem við sjáum skammtafræðilega eiginleika efnisins.“
Hann segir að til þess að geta gert frekari skammtafræðitilraunir þurfi rannsakendur að hafa Bose-Einstein þéttingu, sem er það sem myndbandið snýst um að segja frá.
Hægt er að velja íslenskan texta með því að fara í tannhjólið, velja „subtitles“ og „Icelandic“.
Ottó segir að ekki sé til búnaður á Íslandi til að sinna rannsóknum af þessu tagi, en enginn hér á landi sinni rannsóknum á köldum atómskýjum. „Svo er búnaðurinn sem þarf tiltölulega dýr, kannski miðað við annað sem hægt er að gera. Ég veit það ekki. Til að búa til svona „lab“ þarf kannski eitthvað um 200 milljónir,“ segir hann, og bætir við: „Og svo áhugasama nemendur.“
Teiknað í atómskýið
„Eitt af því sem er flott við tilraunina okkar, er ekki bara það að við getum búið til köld atómský, heldur skoðum við þau líka í gegnum mjög öfluga smásjá,“ segir Ottó. Hann segir að þar hafi hópnum í fyrsta skipti tekist að sjá ljós frá stökum atómum í skýinu. „Þannig að við gátum aðgreint atómin mjög skýrt.“ Hann bætir því við að þegar þeir hafi áttað sig á því að þetta hefði tekist hafi þeir reynt að móta atómskýið í hjarta.