Athugið þessi frétt er meira en 9 ára gömul.

Skrifað á bréfsefni sendiráðsins

23.02.2012 - 14:05
Mynd með færslu
 Mynd:
Jón Baldvin Hannibalsson, fyrrverandi utanríkisráðherra og sendiherra í Washington skrifaði bréf til systurdóttur eiginkonu sinnar, Guðrúnar Harðardóttur, á bréfsefni sendiráðsins í Washington. Bréfið er birt í Nýju lífi í dag. Bréfið var meðal annars tilefni rannsóknar ríkissaksóknara árið 2005.

Í því segir Jón Baldvins frá bók eftir Vargas Llosa. Bókin sé munúðarsaga um þroskaða konu sem ungur drengur leggur á girndarhug. Því næst lýsir hann kynlífi með eiginkonu sinni. Bréfið endar Jón Baldvin svo á að spyrja hvort Guðrúnu hvort hún vilji ekki heimsækja sig þegar hann sé „aleinn og yfirgefinn“ til að stytta sér stundir.

Við yfirheyrslur hjá lögreglu vegna þessa bréfs viðurkenndi Jón Baldvin að hafa farið yfir strikið í bréfinu. Hann hafi sýnt af sér dómgreindarbrest og verið undir áhrifum af bókinni og áfengi. Hann neitaði að hafa haft nokkurt kynferðislegt í huga, hann hafi verið að fjalla um bókina sem sé listaverk.

Ríkissaksóknari lét málið niður falla á sínum tíma þar sem það braut ekki í bága við lög í Venesúela, þar sem bréfið var opnað. Guðrún var skiptinemi í Venesúela þegar Jón Baldvin skrifaði bréfið. Jón Baldvin sagði í Fréttablaðinu í dag að það hafi verið dómgreindarbrestur af hans hálfu að skrifa bréfið.