Athugið þessi frétt er meira en 7 ára gömul.

Skriðnahellir með þeim stærstu á Austurlandi

23.05.2016 - 12:26
Mynd með færslu
 Mynd: Martin Gasser í Skriðnahelli - Hlynur Sveinsson/youtube
Skriðnahellir í Njarðvíkurskriðum reyndist vera um 80 fermetrar að stærð og er með stærstu lokuðu hellum á Austurlandi. Göngin inn í hann um 15 metra löng. Hópur fólks fór í hellinn á laugardag til mælinga.

Þjóðsögur herma að Skriðnahellir sé tengdur Dalahelli á Héraði og Sesseljuhelli í Borgarfirði og áttu hundar og kettir að hafa komist þar í gegn. Hellirinn var lokaður í um 20 ár eftir jarðhræringar en um hvítasunnuhelgina tókst nokkrum mönnum að moka sig inn í hann. Um helgina sneru þeir aftur í hellinn og með þeim Martin Gasser jarðfræðingur. Martin segir að þrátt fyrir jarðhræringarnar sé Skriðnahellir ekki hættulegri en aðrir hellar en gæti þó reynst varasamur í mikilli rigningartíð. Fáir lokaðir hellar sem þessi séu á Austurlandi og meira sé um skúta. Einn hellamanna, Bergvin Snær Andrésson, segir að við nánari athugun hafi komið í ljós að í jarðhræringunum sem lokuðu hellinum hafi opnast ný göng og að það hafi verið sú leið sem mokað var úr. Hellamenn eru að meta hvernig best sé að auðvelda aðgengi í hellinn. Nú er ekki hægt að komast þangað nema með því að skríða á magnum og verða skítugur upp fyrir haus. Eftir að hellirinn var mældur á laugardag skáluðu hellamenn í víni og leikið var á munnhörpu.

Þeir sem tóu þátt í uppgreftrinum um hvítasunnuhelgina voru Hlynur Sveinsson, Bergvin Snær Andrésson, Birkir Björnsson og Halldór Ármann Eiðsson.