Athugið þessi frétt er meira en 6 ára gömul.

Skriðdrekasprengjur og HM í fótbolta

06.06.2015 - 07:32
epa04780699 (FILE) A file picture dated 26 August 2007 shows FIFA President Sepp Blatter (C), UEFA President Michel Platini (L) and German soccer legend Franz Beckenbauer (R) arriving for a gala match between FIFA and Team 2000 in the 10th edition of the
Félagarnir Platini, Blatter og Beckenbauer á góðum degi á Sepp Blatter-mótinu í ágúst 2007.  Mynd: EPA - KEYSTONE / EPA FILE
Spillingarmálin innan alþjóða knattspyrnusambandsins, FIFA, teygja sig æ víðar. Mest hefur verið fjallað um mútugreiðslur í tengslum við HM í Rússlandi 2018, HM í Katar 2022 og HM í Suður-Afríku 2010.

Uppljóstranir síðustu daga hafa hins vegar einnig leitt eitt og annað í ljós sem vafi leikur á að standist allra ströngustu viðskipta- og siðferðiskröfur varðandi HM í Frakklandi 1998 og HM í Brasilíu 2014. Og nú greinir þýska stórblaðið Die Zeit frá því, að mögulega hafi ekki allt verið fullkomlega með felldu, þegar hinir háu FIFA-herrar ákváðu að Þjóðverjar skyldu halda heimsmeistaramótið 2006

Þýskaland og Suður-Afríka voru þau tvö lönd sem að lokum komu til greina þegar um þetta var vélað í júlímánuði árið 2000 og Suður-Afríka þótti lengi vel líklegri til að hreppa hnossið, enda var það Sepp Blatter mikið kappsmál að mótið færi fram í Afríku. Skömmu fyrir lokaatkvæðagreiðsluna gerðist það hins vegar að nokkrum fulltrúum virðist hafa snúist hugur. Þá yfirgaf Charles Dempsey frá Nýja Sjálandi salinn áður en atkvæðagreiðslan fór fram og gaf aldrei upp hvers vegna. Hann hafði áður lýst þvi yfir að hann hygðist greiða Suður-Afríku sitt atkvæði.
Atkvæðagreiðslan endaði 12 - 11, Þýskalandi í hag. Fjarvera Dempseys reið því baggamuninn, því talið er víst að Blatter hefði stutt Suður-Afríku ef bæði hefðu fengið jafn mörg atkvæði.

Í úttekt Zeit á málinu er síðan rakið hvernig stórfyrirtæki í þýskum iðnaði og þungavigtarmenn í þýskri pólitík tóku höndum saman í aðdraganda lokaatkvæðagreiðslunnar, til að reyna að tryggja Þýskalandi heimsmeistaramótið. Daimler fjárfesti 100 milljónir evra í Hyundai í Suður-Kóreu, en fyrir einskæra tilviljun sat sonur stofnanda Hyundai-verksmiðjanna í stjórn FIFA á þessum tíma. Bæði Volkswagen og Bayer AG lofuðu miklum fjárfestingum í Suður Kóreu og Tælandi.

Og síðast en ekki síst: Viku fyrir hina örlagaríku atkvæðagreiðslu afnam ríkisstjórn Gerhards Schröders vopnasölubann sem verið hafði í gildi gagnvart Saudi-Arabíu árum saman. Í framhaldinu keyptu Sádi-Arabar heilmikið af skriðdrekasprengjum - og greiddu síðan Þýskalandi sitt atkvæði á fundi FIFA, rétt eisn og fulltrúar Tælands og Suður-Kóreu.

Blaðamaður Zeit undirstrikar að þessar aðfarir hafi kannski ekki verið beinlínis ólöglegar. En honum finnst eitthvað vanta uppá að þær hafi verið íþróttamannslegar.

 

Ævar Örn Jósepsson
Fréttastofa RÚV