Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Skriðan sést á gervitunglamyndum ESA

07.07.2018 - 23:15
Mynd með færslu
 Mynd: Vilhjálmur Þór Guðmundsson - RÚV
Á Facebook-síðu eldfjallafræði- og náttúrvárhóps Háskóla Íslands er greint frá því að ratsjármynd frá SENTINEL-1, gervitungli evrópsku geimvísindastofnunarinnar, ESA, síðan klukkan rúmlega átta í morgun, megi sjá skriðuna sem féll í Hítardal snemma í morgun.

Á síðunni segir að þó að skriðan verði kortlögð með nákvæmari hætti með drónum og búnaði í flugvél Landhelgisgæslunnar, sé mikið gagn að gervitunglamyndum þó upplausn þeirra sé ekki jafn góð. Myndin frá því í morgun var borin saman við mynd af sama svæði frá 25. júní. Miðað við þær myndir virðist skriðan þekja um 1,8 ferkílómetra, sé upptakasvæðið ekki tekið með. Þá segir enn fremur að með því að skoða loftmyndir af Fagraskógarfjalli, þaðan sem skriðan féll, sjáist eldra brotsár á sama stað í fjallinu og hraukar neðan þess. Þykir það benda til þess að þetta sé ekki fyrsta skriðan á svæðinu.