Skráargatið gæti verið lykilatriði

Mynd með færslu
 Mynd:

Skráargatið gæti verið lykilatriði

16.10.2013 - 14:31
Vilji neytendur velja sér heilsusamlega matvöru gæti hollustumerkið Skráargatið einfaldað leitina og valið. Skráargatið er sænskt að uppruna en ákveðið var á þingi snemma árs 2012 og taka það í notkun á Íslandi. Sá hængur er þó á að ekki hefur verið gefin út reglugerð til að fylgja málinu eftir.

Stefán Gíslason segir frá Skráargatinu og útskýrir hvað merkið á að tryggja í hollustu matvæla.

Sjónmál  miðvikudaginn 16. október 2013

---------------------------------------------------------------

Pistill Stefáns

Hollustumerkið Skráargatið er eitt þeirra fjölmörgu merkja sem ætlað er
að auðvelda neytendum valið þegar þeir standa fyrir framan búðarhillu í
matvælaverslun og vita ekki alveg í hvorn fótinn þeir eiga að stíga í allri
þeirri fjölbreytni sem þar blasir við. Skráargatið er svo sem auðþekkt, því að
þetta er bara hvítt skráargat á grænum grunni, það er að segja ef maður leiðir
hjá sér þá heimspekilegu spurningu hvort gat geti yfirleitt verið einhvern
veginn á litinn.

Skráargatið hefur verið í notkun í Svíþjóð frá því á árinu 1989, en þá
var það fyrst skráð sem vörumerki þarlendis. Upphaflega átti merkið að vísa
neytendum á matvörur með minni fitu og meiri trefjum, en síðan þá hefur
merkingin þróast í það að vera staðfesting á því að viðkomandi matvara
innihaldi

  • minni og/eða betri fitu,
  • minni sykur,
  • minna salt og
  • meiri trefjar og heilkorn.

Nú er eðlilegt og eiginlega nauðsynlegt í málfræðilegu tilliti að spurt
sé „minna en hvað?“ eða „meira en hvað?“. Svarið við þessum spurningum fer
eftir því hvers konar matvöru er um að ræða. Skráargatið getur nefnilega gefið
upplýsingar um ýmiss konar matvöru, hvort sem hún er í lausu máli eða í
neytendaumbúðum – og sömuleiðis um tilbúna rétti, matseðla og mat á veitingahúsum.
Í Svíþjóð er Skráargatið notað fyrir 25 fæðutegundir og skilyrðin eru jafn ólík
og fæðutegundirnar eru margar, enda varla hægt að gera nákvæmlega sömu kröfur
um innihaldsefni í mjólk og í brauði, svo dæmi sé tekið. Nokkur skilyrði gilda
þó um allar fæðutegundir. Þannig má varan í engum tilvikum innihalda sætuefni,
í 100 grömmum af olíu og annarri fitu í vörunni mega ekki vera meira en 2 g af
iðnaðarframleiddum transfitusýrum og merkið má ekki nota á matvæli sem ætluð
eru börnum undir þriggja ára aldri. Skilyrðin eru byggð á norrænum
næringarráðleggingum, og í öllum aðalatriðum endurspeglar Skráargatið hollustumarkmið
íslenska Landlæknisembættisins.

Í Svíþjóð er áskilið að merkið sé ókeypis, framleiðendur þurfa ekki að
tilkynna um notkun sína á merkinu og þeir bera sjálfir ábyrgð á að reglum
merkisins sé fylgt. Samt er það ekki þannig að notkun merkisins sé alveg
eftirlitslaus. Í Svíþjóð er eftirlitið í höndum heilbrigðisnefnda sveitarfélaga
og í vissum tilvikum Matvælastofnunar, eða Livsmedelsverket eins og sú ágæta
stofnun heitir á frummálinu.

Skráargatið er sem sagt sænskt að ætt og uppruna, en það hefur verið í
notkun í Noregi og í Danmörku frá því í júní 2009. Reglurnar í þessum löndum
eru ákveðnar af sænsku matvælastofnuninni í samvinnu við samsvarandi stofnanir
í hinum löndunum. Í öllum löndunum þremur er merkið orðið mjög vel þekkt og
merktar vörur eru einhvers staðar á bilinu 500-3.000 talsins í hverju landi um
sig. Í Svíþjóð þekktu 98% neytenda merkið samkvæmt könnun sem gerð var árið 2010
og í Noregi var þekkingarhlutfallið líka komið í 98% síðastliðið vor.

Enn sem komið er er Skráargatið svolítið munaðarlaust á Íslandi. Hér
gilda nefnilega engar reglur um notkun þess og enginn aðili hefur formlega
fengið eftirlitshlutverkið. Neytendasamtökin hafa lengi beitt sér í málinu og
hafa frá því á árinu 2008 hvatt yfirvöld til þess að taka merkið upp. Í febrúar
2011 lagði Siv Friðleifsdóttir og fjórir aðrir þingmenn fram tillögu til
þingsályktunar um upptöku Skráargatsins hér á landi. Tillagan var ekki afgreidd
á því þingi en lögð fram aftur um haustið. Þann 16. febrúar 2012 samþykkti Alþingi
svo með öllum greiddum atkvæðum þingsályktun þess efnis að „sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra beiti
sér fyrir því að unnt verði að taka upp norræna hollustumerkið Skráargatið á
matvörur sem framleiddar eru hérlendis
“, svo vitnað sé orðrétt í
þingskjalið. Tólf dögum síðar samþykkti Alþingi, aftur með öllum greiddum
atkvæðum, lagabreytingu sem var nauðsynleg til þess að sjávarútvegs- og
landbúnaðarráðherra gæti sett reglugerð sem þurfti til að innleiða Skráargatið
formlega. Í slíkri reglugerð ætti að tilgreina skilyrðin sem einstakar tegundir
matvæla þurfa að uppfylla, mæla fyrir um hvernig eftirliti skuli háttað
o.s.frv. Drög að reglugerðinni voru tilbúin 2012, en eftir því sem ég kemst
næst hefur reglugerðin ekki enn litið dagsins ljós

Þó að Skráargatið hafi formlega séð ekki haldið innreið sína á Íslandi
eru nokkrir framleiðendur farnir að nota merkið. Sjálfsagt fylgja þeir reglum sænsku
matvælastofnunarinnar, en þær hafa svo sem ekkert verið aðlagaðar íslenskum
aðstæðum. Svo hefur heldur enginn fengið það hlutverk að fylgjast með því hvort
merkið sé rétt notað, eins og áður hefur komið fram. Skráargatið stendur því
enn á brauðfótum á Íslandi.

Nú er eðlilegt að spurt sé hvort eða hvernig Skráargatið sé frábrugðið
eiginlegum umhverfismerkjum á borð við norræna Svaninn, eða merkjum fyrir
lífræna framleiðslu. Því er til að svara að Skráargatið er á ýmsan hátt mjög ólíkt
þessum merkjum, ekki bara að útliti heldur líka að ýmsu öðru leyti. Þar má
fyrst nefna að Skráargatið er ekki vottað af þriðja aðila eins og Svanurinn og
lífrænu merkin, heldur getur framleiðandinn notað merkið án þess að biðja
nokkurn um leyfi, svo fremi sem hann telur sig uppfylla reglurnar. Svo kemur
bara í ljós hvað gerist ef eftirlitið kemur í heimsókn.

Hvernig sem á málið er litið hlýtur niðurstaðan að vera sú að Skráargatið
sé hið mesta þarfaþing. Með því að hafa það til hliðsjónar við val á matvöru,
jafnframt því sem maður temur sér heilbrigðan lífsstíl að öðru leyti, hreyfir
sig reglulega o.s.frv., getur maður stuðlað að betri heilsu bæði á næstunni og
í framtíðinni. Næsta verkefni er þá bara að halda áfram að bíða eftir
reglugerðinni til að maður geti verið nokkurn veginn viss um merkið standi
fyrir það sem það á að standa fyrir.