Skothvellir og vélargnýr á Mývatni

18.03.2016 - 22:45
Mynd með færslu
 Mynd: Rögnvaldur Már Helgason - RÚV
Skothvellir og vélargnýr einkenna nú Álftavog á Mývatni, þar sem tökur á hasarmyndinni Fast Eight standa nú yfir. Hitabylgjan síðustu daga hefur sett strik í reikninginn en þó hafa ekki orðið miklar tafir.

Þegar fréttastofu bar að garði í dag var verið að taka upp eltingaleik. Skriðdrekar og herjeppar eltu glæsikerrur á ísnum og skutu á þær, þó auðvitað bara púðurskotum.

Samkvæmt heimildum fréttastofu hafa tökur gengið vel en þó hefur ekki verið hægt að taka upp á ísnum alla þessa viku, sem átti að vera sú vika þar sem meirihluti atriða yrði tekinn upp. Mývatn hefur ekki farið varhluta af hlýindum síðustu daga en þó munu framleiðendur ekki hafa teljandi áhyggjur. Búið er að útbúa vök þar sem sökkva á eftirlíkingu bíls og unnið er frá sólarupprás að sólsetri.

Framleiðslukostnaður myndarinnar hér á landi er um 2,6 milljarðar króna og þegar maður sér umfangið á svæðinu kemur sú upphæð ekki á óvart. Mikil öryggisgæsla er á svæðinu en þó er erfitt að leyna því hvað hér fer fram.

Tökusvæðið er alveg við þjóðveginn í kringum Mývatn og áhugasamir vegfarendur freistast til þess að fylgjast með. Björgunarsveitin Stefán á Mývatni sinnir öryggisgæslu ásamt Securitas og sér til þess að umferðin stöðvist ekki, svo ekki skapist hætta.
  
Næsti tökustaður er svo á Akranesi, þar sem tekinn verður upp eltingarleikur á Sementsreitnum svokallaða í byrjun apríl.

 

Rögnvaldur Már Helgason
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi