Athugið þessi frétt er meira en 8 ára gömul.

Skoski þjóðarflokkurinn með yfirburði

Mynd með færslu
 Mynd:
Skoski þjóðarflukkurinn hefur langmest fylgi flokka í Skotlandi ef marka má nýja könnun sem blaðið Guardian birtir í dag og benda niðurstöður til að flokkurinn geti haft veruleg áhrif á þróun mála að loknum þingkosningum í Bretlandi í vor.

Í könnuninni mælist fylgi Skoska þjóðarflokksins 43 prósent í Skotlandi, 23 prósentustigum meira en í þingkosningunum árið 2010. Fylgi breska Verkamannaflokksins í Skotlandi mælist nú 26 prósent eða um 16 prósentustigum minna en í kosningunum 2010.

Fylgi Íhaldsflokksins minnkar einnig eða um fjögur prósentustig og mælist nú 13 prósent. Frjálslyndir demókratar eru með sex prósenta fylgi, 13 prósentustigum minna en í síðustu kosningum.

Skoski þjóðarflokkurinn hlaut sex af 59 þingsætum Skota á breska þinginu í síðustu kosningum, en ef þetta yrði niðurstaðan fengi flokkurinn 45 þingsæti á þinginu í Lundúnum. Verkamannaflokkurinn sem fekk 41 þingsæti í Skotlandi í síðustu kosningum fengi einungis tíu.