Athugið þessi frétt er meira en 5 ára gömul.

Skortur barna djúpstæðari og meiri en áður

20.01.2016 - 18:13
Mynd með færslu
 Mynd: Brynjólfur Þór Guðmundsson - RÚV
Á árunum 2009 til 2014 tvöfaldaðist fjöldi þeirra barna sem búa við efnislegan skort hér á landi. Árið 2014 voru þau 6100 talsins. Fjöldi þeirra barna sem leið verulegan skort þrefaldaðist, 1600 börn töldust gera það árið 2014. Börn leigjenda, ungra foreldra og foreldra með litla atvinnuþátttöku standa verst. Þetta kemur fram í nýrri skýrslu Unicef um stöðu barna á Íslandi sem kynnt var í Þjóðminjasafninu í dag.

 Getur barnið boðið vinum heim?

Getur barnið þitt boðið vinum heim í mat? Á það tvenn skópör sem passa? Hefur það aðstöðu til þess að sinna heimanámi á heimilinu? Fær það ávexti á hverjum degi? Er tölva á heimilinu? Hvað um salernisaðstöðu? Kemur næg dagsbirta inn um gluggana?

Þessar spurningar og nokkrar til viðbótar til voru lagðar fyrir foreldra barna á aldrinum eins til fimmtán ára í lífskjararannsókn Hagstofu Evrópu árin 2009 og 2014. Börn þeirra sem svara tveimur eða fleiri spurningum neitandi teljast búa við efnislegan skort. Sé þremur spurningum eða fleiri svarað neitandi telst skorturinn verulegur.

Einblínt á börnin ekki heimilin

Hagstofa Íslands hefur nú, að beiðni Unicef, greint niðurstöður lífskjararannsóknarinnar frekar með sérstakri aðferð sem þróuð var af rannsóknarstofnun samtakanna og snýr að skortgreiningum í efnameiri ríkjum. „Það sem Unicef á Íslandi bað Hagstofu Íslands að gera var að taka gögn sem lágu fyrir úr lífskjararannsókn Evrópusambandsins og greina þau með nýjum hætti, sem er skortgreining Unicef. Þarna voru til tölur frá 2009 og 2014 og Hagstofan keyrði þær tölur með þessari aðferð þar sem barnið er í forgrunni, þetta er barnamiðuð aðferð sem horfir ekki á heimilið og skort þess heldur á barnið. Þessi aðferð leiðir í ljós hvaða börn það eru sem eru líklegri en önnur til að líða skort og þá líka á hvaða sviðum þau skortir. Nú vitum við að ef þú ert barn á Íslandi sem líður skort þá eru mestar líkur á að þú eigir foreldra sem eru yngri en þrjátíu ára að þeir séu í lægsta tekjubili. Að þeir séu á leigumarkaði, séu í stærri bæjum, að það séu tveir í heimili en eitt barn og að atvinnuþátttaka foreldra sé lítil, minni en 50%,“ segir Sigríður Víðis Jónsdóttir, upplýsingafulltrúi Unicef á Íslandi og bætir við að einnig sé líklegast að foreldrarnir séu með grunnmenntun og hafi íslenskan bakgrunn, það er, séu fæddir á Íslandi. 

Dæmi um að börn skorti aðgang að salerni

í ljós kom að skorturinn jókst ekki einungis milli mælinga, hann varð einnig djúpstæðari. Árið 2009 skorti ekkert barn meira en fjögur atriði af listanum, árið 2014 skorti um 150 börn sjö atriði. Þá fjölgaði í hópi þeirra barna sem skorti eitt atriði á listanum, það átti árið 2014 við um þriðjung íslenskra barna. Algengast er að íslensk börn líði skort vegna húsnæðis, 9000 börn gerðu það árið 2014, 13,4% þeirra.

Sjö svið skorts, margar bakgrunnsbreytur

Aðferðin gengur út á að greina efnislegan skort á sjö sviðum en ekki einu eins og almennt tíðkast. Sviðin eru; næring, klæðnaður, menntun, aðgengi að upplýsingum, húsnæði, afþreying og félagslíf. Skorturinn er rannsakaður út frá mörgum bakgrunnsbreytum; kyni barns, menntunarstigi foreldra, uppruna foreldra, heimilisgerð, stöðu á húsnæðismarkaði, búsetu, tekjum foreldra, hlutfallslegri atvinnuþátttöku foreldra og aldri foreldra.

Ítrekaðar athugasemdir við gagnaöflun hér á landi

Í skýrslu Unicef kemur fram að frá því íslensk stjórnvöld lögfestu barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna árið 2013 hafi Barnaréttarnefnd Sameinuðu þjóðanna ítrekað bent íslenskum yfirvöldum á að skortur sé á víðtækri og reglulegri gagnaöflun um stöðu barna hér á landi. Slíkum ábendingum verði að taka alvarlega, markviss greining á gögnum sem varða lífsgæði barna sé forsenda þess að hægt sé að stuðla að jafnræði meðal þeirra. Sigríður vonar að greining Unicef festist í sessi.

„Við viljum að Íslensk stjórnvöld láti árlega mæla efnislegan skort meðal barna hér á landi og láti greina gögnin með skortgreiningu Unicef og setji sér svo í framhaldinu skýr og mælanleg markmið um að draga úr efnislegum skorti meðal barna.“

Er vilji til þess hjá stjórnvöldum? „Við höfum fengið mjög jákvæð viðbrögð, stjórnvöld eru nú með málið í skoðun og við munum fylgja þessu fast eftir,“ segir Sigríður. 

„Hér á enginn að líða skort“

Bergsteinn Jónsson, framkvæmdastjóri Unicef á Íslandi tekur undir með henni. Það að geta fylgst með hópunum yfir tíma sé mikilvægt og nýtist stjórnmálamönnum við stefnumótun, svo sem á sviði húsnæðismála, og fræðimönnum í rannsóknarvinnu.

„Hvort við þurfum að gera meira fyrir þennan hóp, minni fyrir hinn og á hvaða tíma til þess að komast fyrir vandamálið algerlega því við erum eitt af efnamestu ríkjum heims og hér á enginn að líða skort.“

Gott að aðlaga listann að íslenskum veruleika

Margt er enn óljóst og það er von Bergsteins og Sigríðar að hægt verði að þróa rannsóknina áfram og aðlaga hana betur að íslenskum veruleika. „Gögnin byggja á spurningarlista sem kemur frá Eurostat en það er mjög spennandi að taka þann lista, þróa hann áfram, keyra hann árlega og fylgjast mjög náið með efnislegum skorti barna hér á landi," segir Sigríður.

 

Atvinnuþátttaka foreldra vegur þyngst

Það sem mest áhrif virðist hafa á stöðu barna er atvinnuþátttaka foreldra. Börn foreldra sem eru í minna en hálfu starfi skortir efnisleg gæði í 26% tilvika. Aldur foreldra skiptir einnig miklu. Fimmtungur barna ungra foreldra líður skort. Íslensk börn líða helst skort á sviði húsnæðismála. 13,4% barna liðu skort vegna húsnæðis árið 2014. Staða foreldra á húsnæðismarkaði er veigamikill áhrifaþáttur og gögnin benda til þess að staða þeirra barna sem búa í leiguhúsnæði hafi versnað. Árið 2009 liðu tæp sjö prósent þessara barna efnislegan skort en árið 2014 var hlutfallið komið í 19%. Þá er menntun foreldra stór áhrifaþáttur. Árið 2014 skorti börn foreldra sem einungis höfðu grunnmenntun efnisleg gæði í 18% tilvika en börn foreldra með háskólapróf í 6% tilvika. Ýmislegt kemur á óvart. Árið 2009 liðu börn af erlendum uppruna frekar skort en börn sem eiga íslenska foreldra. Árið 2014 hafði þetta snúist við, börn erlendra foreldra liðu síður skort. Þá mældist skortur barna á heimilum þar sem býr par með eitt barn sexfalt meiri en árið 2009. Átján prósent barna á slíkum heimilum líða skort. Til samanburðar töldust 15% barna einstæðra foreldra búa við skort árið 2014.

Á vefsíðu Unicef má nálgast þau gögn sem liggja skýrslunni til grundvallar

Áhrif hrunsins að koma fram?

Bergsteinn telur að hugsanlega sýni rannsóknin fram á áhrif hrunsins.

„Við erum að bera saman 2009 sem er þegar áhrif góðærisins ríkja ennþá og bera það saman við 2014 þegar áhrif kreppunnar eru kannski meira komin fram.“

Ingibjörg Broddadóttir, sérfræðingur á skrifstofu félagsþjónustu í velferðarráðuneytinu, tekur undir það og segir að Finnar og fleiri kreppureyndar þjóðir sem Íslendingar hafi ráðfært sig við eftir hrun hafi ítrekað bent á að áhrif þess kæmu ekki að fullu fram fyrr en að fimm árum liðnum.

„Ekkert sem segir mér að eitthvað hafi breyst“

En má þá ætla að staðan hafi breyst til hins betra nú? Anni Guðný Haugen, lektor í félagsráðgjöf við Háskóla Íslands, telur svo ekki vera. Stjórnvöld hafi gert þau mistök að skera niður alls staðar í kringum börnin eftir hrun.

„Ég held við höfum fallið í þá gryfju að skera niður á þeim stöðum þar sem börn eru, þarna er ég að tala um skóla, frístundaheimili og svo framvegis. Þarna hefur verið viðvarandi niðurskurður í mörg ár og um leið stundum aukin gjaldtaka til að taka þátt. Mér finnst mjög líklegt, þó ég hafi ekki rannsóknir sem sýna það að þetta geri það að verkum að þetta bitnar miklu harðar á börnum. Það er ekkert sem segir mér að það hafi breyst mjög mikið frá árinu 2014.“

 

Hvert ár skiptir máli

Hún segir hvert ár sem barn býr við skort marka það með alvarlegri hætti en hvert ár sem fullorðinn býr við skort. Skorturinn leiði til þess að þau fái ekki sömu tækifæri og önnur börn, þau einangrist frekar, afli sér síður menntunar og eigi frekar á hættu að búa við skort á fulllorðinsárum.

„Mér fannst þessi skýrsla svolítið undirstrika þetta með því að sýna að það er meiri skortur hjá börnum foreldra með litla menntun þannig að menntunarþátturinn er mjög mikilvægur. En það eru fleiri þættir eins og að geta boðið vinum heim, að hafa einhverja stöðu í félagahópnum. Allt þetta er að byggja upp fyrir framtíðina hjá börnum og við þurfum að tryggja að þau geti gert það í dag."

Anni segir mikilvægt að í umræðu um húsnæðismál á þinginu verði tekið mið af niðurstöðum skýrslunnar. Þá nýtist hún í allri stefnumótun ríkis og sveitarfélaga.

„Við þurfum að spyrja, hvar við séum að hagræða og hvernig og hvaða áhrif það hefur á börn.“

Börn af erlendum uppruna standa betur

Tvennt í niðurstöðum greiningarinnar kom sérstaklega á óvart. Annars vegar hefur staða barna sem eiga annað foreldri eða báða af erlendum uppruna batnað mjög. Þessi börn skorti meira en börn íslenskra foreldra árið 2009 en nú hefur dæmið snúist við. Íslensk börn líða frekar skort.

„Við vitum í raun bara að skortur þeirra á sviði næringar og klæðnaðar hefur minnkað mjög mikið á milli ára, þau skortir enn meira á sviði húsnæðis en svipað á öðrum sviðum.“

Hann veltir því fyrir sér hvað valdi þessu, hvort verkefni og áætlanir sveitarstjórna hafi borið góðan árangur eða hvort einungis þeir sterkustu nái að fóta sig hér á landi. Anni segir að gott væri að greina gögnin betur, svo sem eftir aldri. Þá myndi hún vilja sjá greiningu á skorti eftir upprunalöndum foreldra barnanna.

Staða para með eitt barn hríðversnar

Hins vegar hefur staða einkabarna sem alast upp hjá báðum foreldrum versnað verulega. Árið 2009 bjuggu 3% þeirra við skort, nú búa 18% þeirra við skort. Þau standa verr en börn einstæðra foreldra. Bergsteinn segir að hugsanlega sé þarna einhver skekkja. Þetta sé oft ungt fólk, hugsanlega á leigumarkaði og í námi, með ungt barn og þarfir smábarna, svo sem á sviði félagslífs, séu ólíkar þörfum eldri barna. Því mælist kannski skortur sem er ekki til staðar í raun.

„Þetta er í rauninni eina atriðið sem við viljum skoða aðeins betur og athuga í næstu mælingum. Reyndar er vöxturinn það mikill að það er greinilegt að eitthvað hefur gerst. Það gæti verið einhver skekkja en sennilega svipuð og árið 2009.“

Bergsteinn segir erfitt að segja hvað veldur. Unga fólkið sé frekar á leigumarkaði eða í námi.

„Og með fyrsta barni er það að mæta kostnaðaraukningu. Þetta segir eitthvað um stöðu ungs fólks, það er erfitt að segja til um hvað, hvort úrræði eftirhrunsáranna hafi beinst meira að einstæðum foreldrum og félagslega kerfið haldi ekki nægilega vel utan um fátæk pör.“

Vilborg Oddsdóttir, félagsráðgjafi hjá Hjálparstofnun kirkjunnar segist ekki hafa orðið vör við aukna neyð hjá þessum hópi.

„Samkvæmt okkar upplýsingabanka, ef þú horfir nokkur ár aftur í tímann, þá eru það fyrst og fremst einstæðir foreldrar sem eru að leita sér aðstoðar þannig að þetta kemur okkur á óvart.“

„Það situr enginn þeirra hér í dag“

Bæði Vilborg og Anni bentu á mikilvægi þess að þeir hópar sem skortir efnisleg gæði komi að stefnumótun sem varðar þá. „Það situr enginn úr þessum hópum hér í dag," sagði Vilborg.

„Við getum ekki endalaust fjallað um þennan hóp sem býr við fátækt, þau þurfa að vera með, við getum ekki alltaf fagfólkið verið að fjalla um aðstæður hans."

Börn skilgreina skort öðruvísi

Anni sagði mikilvægt að rannsaka hvaða skilning börnin sjálf leggðu í aðstæður sínar. „Börn skilgreina oft skort eða fátækt á annan hátt en fullorðnir og upplifa hann öðruvísi en það. Það er held ég mikilvægt að fá þeirra sýn, er eitthvað sem finnst vanta. Þetta er hægt að gera með viðtölum, þetta er viðkvæmt en við höfum fræðimenn sem geta gert svona rannsóknir og nú höfum við grunn sem hægt er að ganga út frá.

En er það algilt að börn sem ekki hafa aðgang að sjónvarpi og ganga í notuðum fötum, til dæmis, búi við skort.

„Þarna erum við náttúrulega að tala um skort út frá því sem samfélagið almennt telur að sé eðlilegt að börn og fullorðnir eigi aðgang að, eins og sjónvarp. Það eru auðvitað sumir sem velja að vera ekki með sjónvarp og það er kannski ekki skortur heldur val en ef þetta er vegna þess að það eru ekki til peningar á heimilinu þá er það skortur."

Nokkrir áhugaverðir punktar úr skýrslunni:

  • 22% barna foreldra í lægsta tekjubilinu líða skort á sviði húsnæðis. Færst hefur í vöxt að þessi börn skorti afþreyingu og félagslíf.
  • Börn foreldra í eigin húsnæði eru mun ólíklegri til að líða skort en önnur börn. Börn sem búa í leiguhúsnæði skortir mun frekar klæði, aðgengi að menntun, afþreyingu og félagslífi en börn foreldra sem eiga eigið húsnæði.
  • Hlutfall dreifbýlisbarna sem býr við skort hefur fjórfaldast frá árinu 2009, farið úr 1,7% í 7,5%. Skortur hefur einnig aukist í stærri bæjum og á höfuðborgarsvæðinu.
  • Fjórðungur barna sem á foreldra með grunnmenntun býr við skort á sviði húsnæðismála, búa til dæmis of þröngt, í illa upplýstum húsakosti eða skortir aðgengi að baðkeri eða sturtu. Hjá börnum sem eiga foreldra með háskólamenntun er hlutfallið 7,4%.
  • Tæplega 9000 börn líða skort á sviði húsnæðis og dæmi eru um að börn hafi ekki aðgengi að salerni eða sturtu heimafyrir.
  • 3400 börn líða skort á sviði félagslífs, algengasta ástæðan er sú að barnið getur ekki boðið vinum heim í mat eða til að leika við sig.
  • 3200 börn líða skort á sviði afþreyingar, eiga ekki leikföng, íþróttabúnað eða bækur sem henta aldri þeirra.
  • 3,2% barna líður skort á sviði næringar. Fá ekki að minnsta kosti eina stóra máltíð á dag, eða ávexti og grænmeti daglega. Það var einungis á sviði næringar og aðgengis að upplýsingum sem staðan batnaði á milli mælinga.
  • Árið 2014 liðu 3% barna skort vegna menntunar, höfðu ekki aðstöðu til heimanáms heima fyrir eða gátu ekki tekið þátt í viðburðum eða ferðum á vegum skólans, kostuðu þeir peninga. Börn þeirra sem eru í lágu starfshlutfalli standa verst, 7% þeirra líða skort á þessu sviði.
  • Fjórðungur barna einstæðra foreldra líður skort vegna húsnæðis.
arnhildurh's picture
Arnhildur Hálfdánardóttir
Fréttastofa RÚV