Athugið þessi frétt er meira en 9 ára gömul.

Skortur á tæknimenntuðu fólki

10.08.2012 - 12:10
Mynd með færslu
 Mynd:
Mikill skortur er á forriturum og tæknimenntuðu fólki til starfa hér á landi. Ólafur Andri Ragnarsson, aðjúnkt við tölvunarfræðideild HR, segir að þúsund manns þurfi árlega til að sinna nýjum störfum í tæknigreinum. Íslenska skólakerfið útskrifi hinsvegar aðeins 500 í tæknigreinum árlega.

„Ef við setjum þetta í samhengi við hve margir útskrifast í þessum greinum hér á landi þá útskrifar tölvunardeildin í HR t.d. 88 manns. Ef allir skólar eru teknir með eru þetta um 500 manns. Þannig að það vantar gríðar mikið af tæknifólki," sagði Ólafur Andri Ragnarsson, aðjúnkt við tölvunarfræðideild HR, í Morgunútvarpi Rásar 2 í morgun. 

„Við þurfum að beina meira af okkar fjármunum í tæknimenntun, því þarna eru störfin sem verða til í framtíðinni. Það reynir því a menntakerfið þegar fjármunirnir koma ekki inn. Hér á landi úrskrifast úr skólum um 4.000 manns á ári. Á næstu tíu árum þurfum við því að búa til 40 þúsund störf. Hvar eiga þessi störf að verða til? Þau verða ekki til í sjávarútvegi, ekki í áliðnaði og ekki í frumgrein eins og landbúnaði," segir hann.

„Menn sjá fyrir sér að störfin verði til innan tæknigreina að mestu leyti. Auðvitað stunda menn hefðbundin störf áfram, en við sjáum að nágrannþjóðir okkar leggja áherslu á tæknimenntun því þar eru störf framtíðarinnar," segir Ólafur Andri Ragnarsson.