Skortur á íslenskunámi fyrir ólæsa

28.11.2016 - 19:04
Mynd: ruv / ruv
Nokkur hundruð innflytjendur hér á landi kunna ekki latneska stafrófið og tugir eru alveg ólæsir. Þetta segir Amal Tamimi framkvæmdastjóri Jafnréttishúss, sem býður upp á íslenskunám fyrir útlendinga. Hún segir tungumálið lykilinn að virkni og framgangi í samfélaginu. Amal heldur erindi um stöðu innflytjenda með litla formlega menntun á málþingi Rauða krossins um mannauð innflytjenda, sem fram fer á morgun. 

„Það er ekki möguleiki fyrir þau að komast áfram í vinnunni ef þau eru ekki að læra tungumál, þau eru oft ólæs eða lítið læs á eigið tungumál. Það er ekki til íslenskukennsla sem er hönnuð fyrir þeirra þarfir.“

Segir Amal. Þetta geta til dæmis verið konur sem ljúka ekki skólagöngu og giftast ungar. Amal bendir á að ekki liggi fyrir upplýsingar um hversu stór ólæsi hópurinn er.

Kenna stafrófið með hjálp mynda

Á íslenskunámskeiðum á vegum Jafnréttishúss er reynt að koma til móts við hvern og einn og stafrófið kennt með hjálp mynda, til dæmis. Hún segir það engu skila að halda sameiginleg námskeið fyrir ólæsa og þá sem hafa lokið háskólanámi. Á hverju námskeiði þurfa að vera 12-15 manns, til að rekstrargrundvöllur sé tryggur. Hjá Jafnréttishúsi er farin sú leið að kenna samlöndum saman, það eru tveir kennarar, annar frá sama landi og nemendurnir og hinn íslenskur. Þetta hefur gefið góða raun að sögn Amal. 

„Það voru fimm úr Taílandshópnum okkar sem fóru í íslenskupróf fyrir ríkisborgararétt og fjórar náðu þannig að þetta er gott, að vera með samlanda sem kennara að minnsta kosti á fyrsta stigi.“

Niðurstöður prófanna hafa í gegnum tíðina bent til þess að fólk frá Asíulöndum eigi erfiðara með að ná tökum á íslenskunni. Að jafnaði ná um 85% allra sem taka prófið en 70% þeirra sem koma frá Asíulöndum. 

Auk Háskóla Íslands og Símenntunarmiðstöðva bjóða fjölmörg fyrirtæki upp á íslenskunámskeið fyrir útlendinga. Capacent gerði í fyrra úttekt á íslenskukennslu fyrir útlendinga fyrir mennta- og menningarmálaráðuneytið. Hún náði til 15 fyrirtækja sem buðu upp á íslenskunámskeið á árunum 2012 til 2014. Á þeim tíma varði ríkissjóður 345 milljónum króna til þess að styðja við íslenskukennslu fyrir útlendinga og 14.452 erlendir ríkisborgarar luku íslenskunámskeiði. Í úttektinni eru vankantar og vafamál reifuð.

Takmörkuð tækifæri til að tala

Þar segir að þátttakendur hafi takmörkuð tækifæri til þess að nota og æfa tungumálið utan kennslustofunnar, úr þessu þurfi að bæta, svo sem með samstarfi við vinnuveitendur. Þá kemur fram að kostnaður við námskeiðin sé talinn geta hindrað innflytjendur í því að sækja námskeiðin. Þeir geta fengið allt að 75% af kostnaði við íslenskunámskeið endurgreiddan frá stéttarfélagi en þeir þurfa að leggja út fyrir námskeiðinu sjálfir, í kringum 40 þúsund krónur. Rúnar Helgi Haraldsson, forstöðumaður Fjölmenningarseturs Íslands, segir kostnaðinn helstu hindrunina. Þá sé enn lítið um að vinnuveitendur bjóði starfsmönnum að fara á námskeið á dagvinnutíma, námskeiðið bætist því við langan vinnudag.

Mjög ólíkar nálganir milli skóla

Í úttektinni kemur fram að samstarf milli skóla sé lítið en allir fylgi samræmdri námskrá menntamálaráðuneytisins. Hún er sveigjanleg og fyrirtækin vinna með fjölbreytt námsefni og aðferðir. Fjölbreytnin gerir það að verkum að það getur reynst innflytjendum á höfuðborgarsvæðinu nokkuð snúið að velja það námskeið sem hentar þeim best, að mati Capacent. Á landsbyggðinni er rekstrargrundvöllur íslenskukennslu fyrir útlendinga aftur á móti viðkvæmur þar sem nemendur eru færri.

Fram kom að heppilegt væri að takmarka fjölda á námskeiði við 20 þátttakendur, ella gæti fjöldinn farið að bitna á gæðum.  Sumir þeirra sem rætt var við í úttektinni töldu að námsefnið væri of viðamikið, ekki gætu allir tileinkað sér svo mikið námsefni á stuttum tíma. Bakgrunnur nemenda væri fjölbreyttur. 

Stjórnvöld vilja efla gæði

Námsmat er að mestu leyti óformlegt og miðast samkvæmt úttektinni þegar öllu er á botninn hvolft fremur við tímasókn en námsárangur. Capacent ályktar sem svo að til þess að tryggja gæði þurfi að meta kennslu með markvissari hætti og veita kennurum aðgang að sínu mati. 

Í haust samþykkti Alþingi framkvæmdaáætlun í málefnum innflytjenda til þriggja ára. Í henni kemur fram að efla þurfi gæði og framboð íslenskukennslu fyrir innflytjendur þannig að íslenska nýtist þeim til virkrar þátttöku í samfélaginu. Til stendur að stofna starfshóp sem á að rýna niðurstöður úttektar Capacent og koma með tillögur að úrbótum. Þá verði útbúin gæðaviðmið fyrir íslenskukennslu fyrir útlendinga. Í áætluninni er ekki minnst sérstaklega á þann hóp sem ekki er læs. 

Amal  segir innflytjendur einangraða á vinnumarkaði. Þeir vinni oft einungis með öðrum innflytjendum. 

„Eða með engum, það er fullt af fólki sem er í ræstingum og er með ábyrgð á blokk eða stað sem það á að þrífa, þau sjá engan, vinna, vinna, vinna og fara heim. Þau bæta ekki tungumál. Ef þau hitta fólk er það frá sama landi eða annar útlendingur.“

Hún segir að eftir Hrun hafi Íslendingar sótt aðeins meira í þessar stöður en nú sé allt komið í sama horf og áður. Það sé til staðar stéttaskipting og sum störf; Ræstingar, fiskvinnsla og störf í byggingariðnaði séu einfaldlega skilgreind sem störf fyrir útlendinga. 

Amal kallar eftir stefnumótun af hálfu stjórnvalda. Fólk vinni langan dag til að hafa nóg að bíta og brenna. Stjórnvöld þurfi að marka stefnu um hvenær fólk eigi að læra tungumál, hver eigi að borga námið, hvort námið sé við hæfi allra sem sækja námskeiðið. 

„Það þarf að gera mikið til að þetta nái markmiðinu, að fólk læri tungumál og taki þátt í samfélaginu.“

Hún nefnir að þeir sem ekki skilji geti orðið af tækifærum. 

„Vinnustaður sendir starfsfólk á námskeið sem tengist launahækkun en þessi manneskja fer ekki því hann skilur ekki. Þá er hann ekki með sömu réttindi vegna tungumálsins.“ 

Amal segir að fólk festist í láglaunastörfum. Eina undantekningin sé fólk sem er með góða menntun frá heimalandinu. Það leggi mikið á sig, nái að klifra upp og læra tungumálið.“

„Venjulega getur ólæst fólk ekki gert þetta án hjálpar,“ segir Amal.

Rúnar Helgi segir vandann fjölþættan. Skortur á íslenskukunnáttu sé eitt af því sem hindri innflytjendur á vinnumarkaði. Erlent nafn eitt og sér geti líka verið dragbítur. Rannsóknir bendi til þess að innflytjendur verði fyrir fordómum á vinnumarkaði og upplifi að ekki sé tekið mark á þeim. Þá nefnir hann að innflytjendur eigi erfitt með að fá menntun sína metna. Rannsóknir Fjölmenningarsetur gefa vísbendingar um að meirihluti innflytjenda vinni störf þar sem menntun þeirra nýtist þeim ekki. 

Lærði af Íslendingum á vinnustaðnum

Amal er stjórnmálafræðingur og var fyrst kvenna af erlendum uppruna til þess að setjast á Alþingi. Hún flutti hingað til lands árið 1995 og vann í fiskvinnslu og í bakaríi. Á þeim tíma var framboð á íslenskunámskeiðum mun minna en nú. Hún lærði íslensku fyrst og fremst með því að eiga samskipti við vinnufélaga. Slíkt stendur fáum til boða í dag. 

Níðst á þeim sem ekki þekkja rétt sinn

Í fiskvinnslunni vann Amal fyrst um sinn 16 klukkustunda vinnudag en fékk ekki greitt í samræmi við það. Hún segir að vinnuveitandinn hafi sagt sér að vinnutíminn væri frá hálf átta á morgnana til hálf tólf á kvöldin, síðar hafi annað komið í ljós. Það eru liðin 20 ár síðan þetta gerðist en Amal segir að enn séu dæmi um að vinnuveitendur notfæri sér vanþekkingu þeirra sam standa höllum fæti. Þeir sem ekki eru læsir hljóta að vera sérstaklega berskjaldaðir. Hjá fólki frá löndum utan Evrópska efnahagssvæðisins eru tryggar atvinnutekjur í sumum tilfellum grundvöllur dvalarleyfis og því er fólk hrætt við að missa vinnuna. Það þori hvorki að kvarta við vinnuveitanda né stéttarfélagið. Það gerist ótrúlegustu hlutir á vinnustöðum. Hún nefnir konu sem varð fyrir kynferðislegri áreitni af hálfu yfirmanns en brást ekki við. 

„Þetta fólk sem kann ekki skyldur sínar og réttindi, það er mest misnotað.“

Rúnar Helgi hjá Fjölmenningarsetrinu segist í auknum mæli verða var við það, nú á uppgangstímum að brotið sé á fólki. 

  Hlýða má á umfjöllunina í spilaranum hér fyrir ofan. 

 

arnhildurh's picture
Arnhildur Hálfdánardóttir
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi