Athugið þessi frétt er meira en 8 ára gömul.

Skortur á íslensku nautkjöti

07.03.2014 - 13:30
Mynd með færslu
 Mynd:
Leyfður hefur verið ótakmarkaður innflutningur á nautakjöti til landsins til að mæta skorti á íslensku nautakjöti. Tvö sláturhús á Suðurlandi vantar samtals 60 gripi á viku til slátrunar.

Í lok febrúar gaf atvinnuvega- og nýsköpunarráðneytið út reglugerð um úthlutun opinna tollkvóta á nautakjöti til septemberloka. Samkvæmt upplýsingum frá SS vantar á milli 30 og 40 gripi til slátrunar í hverri viku og Sláturhúsið á Hellu vantar á milli 20 og 30. Samkeppnin um kjötið er harðari en oft áður segir Torfi Jónsson, sláturhússtjóri á Hellu.

Að baki þessari vöntun á kjöti segir Torfi vera nokkrar ástæður. „Ástæðan er fyrst og fremst að bændur fá borgað fyrir umfram mjólk, það vantar mjólk og þeir eru hvattir til að gera það, og þeir halda lengur í kýrnar og þær koma ekki inn til slátrunar eins og ætti að vera við hefðbundnar aðstæður. Og svo bara er Íslendingum að fjölga og það er að stóraukast ferðamannaiðnaðurinn og við þurfum auðvitað að gera vel við það fólk sem kemur til Íslands og allt hjálpast þetta að við að byggja upp þessa vöntun,“ segir Torfi. Vöntunin hafi verið á sumrin mörg undanfari ár en með aukningu ferðamanna segir hann eftirspurnina hafa aukist allt árið.