Skordýraeitur - Höfum við ekkert lært ?

Mynd með færslu
 Mynd:

Skordýraeitur - Höfum við ekkert lært ?

26.06.2014 - 16:07
Stefán Gíslason fjallar í dag um þá ógn sem matvælaframleiðslu heimsins stafar af ofnotkun á skordýraeitri en samkvæmt nýrri skýrslu erum við í sömu sporum og í kringum 1960.

Skordýraeitur sem innihalda neónikótínoíð hafa nú þegar valdið svo mikilli mengun að fæðuframleiðslu heimsins kann að stafa hætta af, ef marka má nýja skýrslu um útbreiðslu og áhrif þessara efna, sem birtist í sérhefti vísindatímaritsins Environmental Science and Pollution Research í fyrradag. Höfundar skýrslunnar ganga svo langt að segja að við séum í raun komin aftur í sömu spor og við vorum á árunum í kringum 1960, þ.e.a.s. um það leyti sem skaðsemi óheftrar notkunar á skordýraeitrinu DDT var í þann veginn að renna upp fyrir mönnum. Árið 1962 urðu einmitt ákveðin þáttaskil í þeirri umræðu með útkomu bókar Rachel Carson, Raddir vorsins þagna, eins og við rifjuðum upp hér í Sjónmáli fyrir skemmstu.

 

Neónikótínoíð hafa líka áður verið til umfjöllunar í Sjónmáli, en á síðasta ári ákvað Evrópusambandið að banna notkun tiltekinna efna úr þessum flokki vegna þess að yfirgnæfandi líkur þóttu á að efnin ættu þátt í mikilli hnignun býflugnastofna í Evrópu. Það er með öðrum orðum ekkert nýtt að neónikótínoíð séu bendluð við býflugnadauða og aðra óáran. Það sem er nýtt í skýrslunni sem kom út á þriðjudaginn er, að þar er safnað saman niðurstöðum úr öllum tiltækum ritrýndum greinum um þessi mál, en hópur 29 vísindamanna hefur unnið að þessu verki síðastliðin fjögur ár. Þar með eru menn komnir með ákveðna heildaryfirsýn sem ekki var áður til staðar. Og málið snýst ekki bara um býflugur, heldur líka um orma í jarðvegi og sitthvað fleira.

 

Neónikótínoíð er mest notaða skordýraeitur samtímans, en árlega verja bændur heimsins um 2,6 milljörðum Bandaríkadala til kaupa á efnum af þessum flokki, en það samsvarar rétt um 300 milljörðum íslenskra króna. Þessi efni eru ekkert endilega notuð til að bregðast við skordýraplágum, heldur fyrst og fremst í fyrirbyggjandi skyni, svo sem við meðhöndlun á fræjum, sem aftur leiðir til þess að efnin dreifa sér um alla plöntuna og verða þannig enn aðgengilegri en ella. Þetta er gert þrátt fyrir „sláandi skort“ á sönnunum fyrir því að notkun efnanna leiði til meiri uppskeru, eins og það er orðað í skýrslunni. Þegar upp er staðið fari því fjarri að efnin verji fæðuframleiðsluna fyrir utanaðkomandi áföllum. Þvert á móti ógni efnin grundvellinum sem fæðuframleiðslan byggir á, þar með töldum býflugum og öðrum frjóberum sem eiga þátt í frjóvgun þriggja fjórðu hluta af öllum matjurtum heimsins, svo og ormum og smærri lífverum sem halda jarðveginum nothæfum til ræktunar. Reyndar eru neónikótínoíð ekki bara notuð við ræktun nytjaplantna, heldur eru þau líka notuð í miklum mæli út um allan heim gegn flóm á hundum og köttum og til að verja timbur fyrir termítum.

 

Einn af höfundum skýrslunnar, Dave Goulson, prófessor við háskólann í Sussex segir það með ólíkindum hversu lítið við höfum lært. Eftir útkomu Radda vorsins hafi menn séð verulega að sér, en nú sé engu líkara en við séum komin á nákvæmlega sama stað og við vorum á á 6. áratug síðustu aldar, þ.e.a.s. rétt áður en bókin kom út. Hér sé sagan einfaldlega að endurtaka sig.

 

Og það eru ekki bara býflugur og jarðormar sem verða fyrir barðinu á neónikótínoíðum. Drekaflugur, sem éta m.a. moskítóflugur, hafa einnig farið illa út úr þessu, svo og aðrar lífverur sem lifa í vatni. Rannsóknir sem gerðar hafa verið benda meira að segja til að vatn sem safnast fyrir í pollum á svæðum þar sem neónikótínoíð hafa verið notuð, sé svo mengað að hægt sé að nota það sem lúsameðal.

 

Fækkun skordýra af völdum neónikótínoíða gæti líka átt mikinn þátt í fækkun fugla sem lifa á þessum skordýrum. Áhrifin á fugla geta þó átt sér stað án milligöngu skordýra, því að fuglar þurfa ekki að éta nema nokkur eitruð fræ til að fá í sig banvænan skammt.

 

Skýrsluhöfundar komast að þeirri niðurstöðu, að þegar á heildina sé litið liggi fyrir nægar sannanir til að hægt sé að fullyrða að útbreidd notkun á þessum þrávirku, vatnsleysanlegu eiturefnum sé farin að hafa víðtæk og varanleg áhrif á fjölbreytileika lífsins á jörðinni og að líklegt verði að telja að þessu fylgi veruleg neikvæð áhrif á dreifingu frjókorna og á aðra vistkerfaþjónustu.

 

Eins og áður sagði samþykkti Evrópusambandið á síðasta ári ákveðnar takmarkanir á notkun neónikótínoíða. Á dögunum óskaði Barack Obama, forseti Bandaríkjanna, sömuleiðis eftir því að þegar í stað yrði gerð úttekt á áhrifum neónikótínoíða á býflugur. En í ljósi þess hversu víðtæk notkun efnanna er, má ljóst vera að þau verða ekki tekin úr umferð á einni nóttu. Og eins og vænta má beita samtök varnarefnaframleiðenda sér af alefli gegn hvers konar takmörkunum á þessu sviði, meðal annars með þeim rökum að fyrirliggjandi rannsóknir séu flestar gerðar á rannsóknarstofum og segi því lítið sem ekkert til um öryggi efnanna við náttúrulegar aðstæður. Þeir halda því líka fram að efnin geri mikið gagn með því að auka uppskeru og spara þannig land sem annars þyrfti að taka undir ræktun, en eins og fyrr segir telja vísindamennirnir að ekki hafi verið sýnt fram á neina uppskeruaukningu í raun.

 

Höfundar skýrslunnar segjast hafa miklar áhyggjur af því sem við vitum um neónikótínoíð. Hins vegar sé næstum því eins mikil ástæða til að hafa miklar áhyggjur af því sem við vitum ekki. Fátítt er að stjórnvöld í einstökum ríkjum hafi haldið opinberar skrár um það hvar þessi efni hafi verið notuð og í hve miklum mæli. Þá hafi löggjafinn ekki gert neinar kröfur um prófanir á langtímaáhrifum lítilla skammta af efnunum, og ekki hafi heldur verið lagt mat á samverkandi áhrif, eða svonefnd „kokteiláhrif“, þar sem fleiri varnarefni eru notuð á sömu svæðum, en þannig er málum einmitt háttað víðast hvar. Þá hafi menn aðeins kannað eituráhrif efnanna á örfáar tegundir lífvera af þeim fjölmörgu sem vitað er að komast í snertingu við efnin. Þannig hafi aðeins verið skoðuð áhrif á fjórar af 25.000 þekktum tegundum býflugna og nánast engar upplýsingar séu til um áhrif efnanna á skriðdýr eða spendýr.

 

Nú getur maður ekki annað en hugsað: Hvað hefði Rachel Carson sagt um þetta ef hún væri enn á lífi? Og getur það verið að við lærum aldrei af reynslunni?